152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

styrkir til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.

232. mál
[11:40]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er enginn að gera ráð fyrir að þetta sé auðvelt ástand til að bregðast við, það er einfaldlega verið að kalla eftir því að gerðar séu sviðsmyndagreiningar á viðbrögðum við mögulegum sóttvarnaaðgerðum áður en til þeirra kemur. Mér finnst mjög sérstakt að til að mynda þurfi að bíða í tvo mánuði eftir að komið sé með einhverjar útfærðar tillögur. Það er talað eins og herðing sóttvarnaaðgerða fyrr í mánuðinum hafi verið sú fyrsta sem kom til í veitingahúsageiranum. Nú hafa liðið tvenn mánaðamót og mætti halda að þeir sem stýra landinu geri sér ekki grein fyrir því hvað felst í því að reka lítið fyrirtæki í landinu. Nú sjáum við fram á töluverðar uppsagnir vegna þess að lítil fyrirtæki hafa einfaldlega ekki bolmagn til að mæta þessum ráðstöfunum. Samt kemur ráðherrann hingað upp og minnist ekki einu orði á hvort það eigi til að mynda að grípa aftur til hlutabótaleiðarinnar sem þó var úrræði, eins og kemur fram í greinargerð þessa frumvarps, sem nýttist þessum geira langbest. Ætlum við að fara inn í enn önnur mánaðamót án þess að heyra svör varðandi til að mynda þetta best nýtta úrræði geirans? Hvar er sviðsmyndagreiningin sem stuðst er við?