152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

styrkir til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.

232. mál
[11:50]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að það þyngir ekki bara bókstaflega reksturinn þegar ekki er hægt að afla tekna, heldur flækir málin þegar þú sérð ekkert fram fyrir þig og óvissan er mikil og ófyrirsjáanleikinn sömuleiðis. Vissulega er það umhugsunarvert að á föstudegi er það viðrað og jafnvel lagt til að loka þurfi öllu og örfáum dögum síðar er talað um að mögulega getum við farið í einhverjar afléttingar. Mig langar að vona það og trúa því að þetta sé endasprettur. Við erum núna með nýgengi upp á meira en 4.500 og erum með 24 inniliggjandi á spítalanum, ef ég er með þá tölu rétta. Vonandi erum við að komast á þann stað að veiran sé orðin það aum og veik að við þurfum ekki að láta hana stýra lífi okkar og við þurfum ekki að grípa til ráðstafana sem gerir fólki ókleift að sækja vinnu eða skapa sér tekjur, upplifa menningu eða gera hvað annað sem það þarf eða kýs til að lifa sínu lífi eins og það vill. En einmitt á lokaspretti viljum við heldur ekki sjá á eftir fyrirtækjum vegna lausafjárvanda í skamman tíma heldur ætlum við að standa við það sem við sögðum. Við ætlum að klára þetta með atvinnulífinu, með starfsfólki og gera það sem hefur virkað best án þess að ganga of langt og reyna að læra af reynslunni og vonandi þá lágmarka þann efnahagslegan skaða sem þó hefur verið sem er gríðarlegur, bæði fyrir fyrirtæki, stór og smá, fyrir ríkissjóð o.s.frv. En það væri mikil synd ef við kláruðum ekki verkefnið á efnahagshliðinni og þess vegna erum við að koma með þessi frumvörp hér og þennan viðbótarstuðning.