152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

sóttvarnaaðgerðir, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[13:49]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Ég er sammála hv. þingmanni um að aðkoma þingsins á að vera þétt í þessu samtali. Ég reikna með því að þegar við tökum sóttvarnalögin til endurskoðunar þá ræðum við það sérstaklega. Ég held líka að eftir því sem liðið hefur á faraldurinn hafi umræðan breyst. Viðfangsefnin breytast jöfnum höndum eftir því sem við fáum ný afbrigði eins og í öðrum faröldrum. Vonandi verður það áfram raunin að afbrigðin mildast og valda síður veikindum og þá verður umræðan sterkari um að horfa til annarra þátta.

Ég er sammála hv. þingmanni að það hefur reynst okkur afar farsælt, og ég kom inn á það í ræðu minni, að fara að ráðum vísindamanna. Við höfum mjög hæfan sóttvarnalækni sem hefur ákveðnu hlutverki að gegna og kemur með vel undirbyggðar tillögur. Ég held að við verðum að skilja á milli þeirra tillagna sem hann leggur til og svo þeirra undanþága sem eru sérstakar. Þær eru fjölmargar sem koma inn í ráðuneytið og til embættis landlæknis, til almannavarna og sóttvarnalæknis þegar kemur að ýmiss konar starfsemi í landinu. Það þarf að taka tillit til þeirra undanþága jöfnum höndum með tilliti til jafnræðis og meðalhófs þegar verið er að skipta um og breyta yfir í hertari aðgerðir.

Hins vegar varðandi tillögurnar var í einu meginatriði kannski ekki farið eftir þeirri beinu tillögu sem kom fram í minnisblaði sóttvarnalæknis, en það var varðandi skólahald (Forseti hringir.) sem sóttvarnalæknir lagði til að við myndum fresta um fimm daga. En það hefur verið línan í gegnum faraldurinn að halda skólum opnum með einni undantekningu (Forseti hringir.) þegar gefnir voru tveir viðbótardagar við páskafrí.