152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

sóttvarnaaðgerðir, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:44]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Forseti. Hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég þakka svörin og vona að ráðherra fylgi enn frekar eftir því sem út af stóð. Við höfum verið farsæl hingað til í aðgerðum stjórnvalda; í sóttvarnaaðgerðum, bólusetningum og öðrum ráðstöfunum sem þau hafa gripið til, svo lágmarka megi áhrif Covid-faraldursins á líf og heilsu fólks, en einnig við að lágmarka efnahagsleg og samfélagsleg áhrif faraldursins. Þar stóð forveri núverandi heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, sig afar vel svo eftir var tekið þar sem líf og heilsa fólks var ávallt sett í fyrsta sæti. Það er mikilvægt að núverandi heilbrigðisráðherra feti áfram þá varfærnu slóð sem hann hefur að mörgu leyti gert og gott að heyra að hann leggi áherslu á að áfram verði fylgt ráðum sóttvarnalæknis. Samstaða þjóðarinnar hefur einnig skipt sköpum í því hvernig til hefur tekist. Við getum ekki boðið upp á það að viðkvæmasti hluti þjóðarinnar þurfi að loka sig af frá samfélaginu svo aðrir geti notið fulls frelsis til æðis og athafna, óháð lífshættu sem slíkt getur sett aðra í. Það eru ekki mannréttindi.