152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

styrkir til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.

232. mál
[15:26]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp sem er liður í því að takast á við heimsfaraldur. Ég tek glaður þátt í þessari umræðu þar sem ég hef tækifæri til þess hér á hinu háa Alþingi. Það er einmitt svona sem hlutirnir ganga fyrir sig. Við eigum að fá þessa umræðu hér. Ég ætla því að nýta mér umræðuna til að koma á framfæri nokkrum sjónarmiðum sem ég hef og hafa komið til mín, og sem þeir sem eru að takast á við afleiðingar faraldursins í rekstri sínum og störfum hafa komið á framfæri. Ég tel vera mikilvægt að við á Alþingi höfum þessi sjónarmið í huga, að hv. efnahags- og viðskiptanefnd hafi þau í huga þegar hún fjallar um málið og að hæstv. ríkisstjórn hafi þau í huga þegar hún ákveður frekari frumvörp sem ég vænti að séu á leiðinni og séu í undirbúningi.

Þetta frumvarp snýst í grunninn um styrki til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma. Útgangspunkturinn í efnahagsaðgerðum vegna atvinnulífsins í gegnum þennan faraldur hefur kannski verið að þeir sem hafa sætt takmörkunum af hálfu hins opinbera fái það einhvern veginn bætt. Ég hef heyrt hér í dag að það hefur verið umræða um hvort það eigi að heita bætur eða styrkir. En hvað um það. Ég vil byrja á því að taka undir orð hæstv. utanríkisráðherra, sem flutti þetta mál fyrir hönd fjármála- og efnahagsráðherra, um að mikilvægt sé að víkka gildissvið þessa frumvarps út fyrir veitinga- og gististaði í flokki IV, ekki bara í flokki III heldur flokki IV. Svo er mikilvægt að huga að frekari úrræðum fyrir lítil og meðalstór ferðaþjónustufyrirtæki víða um land.

Áður en ég fer nánar út í það af hverju þessi atriði eru mikilvæg þá vil ég koma svolítið inn á það af hverju við erum með þessar stuðningsaðgerðir og fyrir hverja þær eru. Það er nú þannig að ef við viljum vaxa til velferðar verður að vera öflugt atvinnulíf hér og fólkið í landinu þarf að hafa atvinnu. Þannig verða verðmætin til. Við erum í stórum samkeppnisheimi í ferðaþjónustunni og þessum þjónustugreinum um að fá fólk í heimsókn til okkar og skapa þannig verðmæti úr veittri þjónustu. Nú þegar liðið hafa tvö ár í heimsfaraldri með mjög ströngum sóttvarnatakmörkunum hefur það vissulega haft gríðarlega mikil áhrif á rekstur fyrirtækja. Það hefur leitt til þess að starfsfólk þessara fyrirtækja hefur t.d. ekki fengið neina yfirvinnu eða aukavinnu sem það hafði kannski treyst á vegna útgjalda við rekstur á heimili sínu. Ég vil benda á að starfsfólk í þjónustugeiranum er alla jafna ekki mikið hálaunafólk og á því kannski ekki mikinn sparnað, þannig að hver króna sem kemur inn til heimilisins skiptir máli og mun meira máli en hjá okkur sem vinnum hjá hinu opinbera á ágætislaunum og höfum fengið þau algjörlega án vandræða. Allt sem hefur áhrif á rekstur þjónustufyrirtækjanna, sérstaklega í ferðaþjónustu, hefur gríðarlega mikil áhrif á tugþúsundir einstaklinga sem starfa hjá þessum fyrirtækjum, sem reka heimili, eru að koma undir sig fótunum. Margt af þessu fólki er að stofna til heimilis og annað slíkt. Það skiptir því mjög miklu máli fyrir okkur sem samfélag að tryggja að þessi fyrirtæki nái að starfa sem mest án raskana til þess að það verði áfram sem minnstar raskanir inni á heimilum fólksins. Þetta er gríðarlega mikilvægt. Þau fyrirtæki sem hafa vissa markaðslega stöðu og þekkingu verða líka að vera til staðar þegar ferðamönnunum verður gert kleift að koma hingað. Þegar þeir sýna áhuga á að koma hingað þurfum við að hafa einhverja þjónustu til þess að veita þeim. Það þarf að vera eitthvað sem þeir þekkja og einhverjir sem þekkja markaðinn til að taka á móti þeim og veita þeim þjónustu sem þeim líkar vel við og þeir skila áfram. Það er gríðarlega mikilvægt.

Það fólk sem lent hefur í því að fara á hlutabótaleið, jafnvel að fara á atvinnuleysisbætur um tíma, vera á lágum launum yfir tveggja ára tímabil, má örugglega flest hvert alls ekki við því að vera sagt aftur upp núna, að fá enn eina uppsögnina. Það lærðum við eftir fjármálahrunið. ASÍ upplýsti það líka á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar á dögunum að þau teikn væru aftur á lofti að þeir sem lentu eftir svona áfall; tekjufall, atvinnumissi og annað slíkt, á atvinnuleysisskrá þyrftu gríðarlega mikinn stuðning, virknistuðning, til að komast af atvinnuleysisskrá og út í atvinnulífið. Þó að fólk hafi fullan vilja til þess að fara aftur út í atvinnulífið hefur það bara ekki orku til þess. Það er hluti af áhrifum þessa faraldurs og við megum ekki ýta undir það. Því er gríðarlega mikilvægt að við hjálpum litlum og meðalstórum þjónustufyrirtækjum um allt land í ferðaþjónustunni, hvort sem það eru veitingastaðir, gistiheimili eða afþreyingarfyrirtæki, að hafa þetta starfsfólk í vinnu fram á vorið þegar við væntum þess að hér komi blómlegri tímar í ferðaþjónustunni og ferðamennirnir fari að koma til okkar aftur. Þá verðum við að hafa öflugt og gott starfsfólk. Við höfum hjálpað þessum fyrirtækjum að lifa til dagsins í dag og ef við hjálpum þeim með einhvers konar viðspyrnustyrkjum og ráðningarstyrkjum á lokametrunum í baráttunni til að þau þurfi ekki að segja upp starfsfólki sínu eða, eins og hv. þm. Ágúst Bjarni Garðarsson kom inn á í ræðunni hér á undan, að veittir séu styrkir út á hvert stöðugildi, eða hvaða leið sem við förum, þá erum við að fjárfesta svo ekki þurfi að segja upp fólki, svo við höfum það til staðar. Fyrirtækin geta þá í samningum við starfsfólkið þjálfað það, undirbúið skyndihjálparnámskeið, gæðanámskeið og annað slíkt, farið í markaðssetningu og undirbúið ferðaþjónustuna til að taka á móti gestum. Það er gríðarlega mikilvægt að koma í veg fyrir að fólk fari ekki inn á félagslegt kerfi eins og atvinnuleysisbætur eða annað slíkt sem verður svo erfitt fyrir það að komast út úr. Það er gríðarlega mikilvægt og því styð ég þetta frumvarp.

Ég styð orð hæstv. ráðherra um að útvíkka þurfi þetta fyrir flokk IV, veitinga- og gistihús, af því að það er raunveruleikinn fyrir utan höfuðborgina. Hér í höfuðborginni erum við kannski meira að horfa á stóru veitingastaðina sem eru reknir sem slíkir. Á landsbyggðinni eru þetta miklu frekar gistiheimili sem eru svo með veitingastað. Þetta eru svo mismunandi aðstæður og ólíku saman að jafna. Það þarf að horfa til þess. Svo erum við líka með lítil og meðalstór afþreyingarfyrirtæki sem við þurfum að horfa til.

Ég vænti þess að frumvarp sé í smíðum hjá stjórnvöldum og að þau komi með það til þingsins. Ég bið hv. efnahags- og viðskiptanefnd að hafa þessi sjónarmið öll fyrir framan sig í vinnunni fram undan. Ég held að þetta skipti gríðarlega miklu máli. Við viljum trúa því að við séum á lokametrunum í þessum faraldri. Tekjurnar byrja að koma inn í vor og að fullu um mitt sumar. Þá mun verða mun meira að gera. Við þurfum á fyrirtækjunum að halda fram að því og við þurfum að hjálpa þeim að vera til staðar. Þetta er sameiginlegt verkefni og það skal enginn segja að þessi stuðningur sé bara til eigenda fyrirtækjanna, síður en svo. Frekar vil ég þakka eigendum fyrirtækjanna fyrir að vera enn þá til staðar, fyrir að hafa staðið í fæturna og hafa tekið þátt í þessu verkefni með okkur. Stuðningur stjórnvalda hefur skipt sköpum, trúi ég, og hefur orðið til þess að samfélagið í heild hefur ekki orðið fyrir meiri áhrifum en raun ber vitni.

Að lokum vil ég koma inn á það að mesti stuðningurinn er náttúrlega að við ræðum sóttvarnaaðgerðirnar og hvernig við getum aflétt þeim og komið fyrirtækjunum í sem eðlilegastan rekstur og samfélaginu í sem eðlilegast horf. Það er kannski hægt að hafa tilmæli um persónulegar sóttvarnir og um að fyrirtækin tryggi visst öryggi, sem ég hef trú á að þau geri. Þau vita hvernig starfsemin er best varin og hvernig öryggi starfsfólksins og gestanna er tryggt. Ef fyrirtæki hugar ekki að öryggi gesta sinna og starfsfólks mun rekstur þess fyrirtækis ekki ganga lengi. Við eigum því alveg að þora að sleppa ábyrgðinni yfir til þeirra og haga sóttvarnaaðgerðum þannig að þær hafi sem minnst áhrif á rekstur fyrirtækjanna og sem minnst áhrif á daglegt líf fólks sem er oftar en ekki á lágum launum. Við höfum heyrt það frá BSRB og ASÍ að þetta eru mikið til innflytjendur, ungt fólk og einstæðir foreldrar sem lenda hvað verst í þessu. Þetta eru tugþúsundir manna og við þurfum og munum eiga eftir að þurfa að takast á við þessar áskoranir sem þessar raskanir hafa haft, mjög lengi eftir að faraldrinum lýkur. Því vildi ég koma hér og benda á þetta heildarsamhengi og segja hvað það skiptir miklu máli að við festum okkur ekki í litlum tæknilegum atriðum eða einhverjum krónum til eða frá. Við þurfum að standa með litlum og meðalstórum þjónustufyrirtækjum á þessum lokametrum þannig að þau verði til staðar fyrir okkur sem samfélag í vor þegar eðlilegt líf hefst á ný.