152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

styrkir til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.

232. mál
[15:39]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Ég kem hingað upp til að lýsa ánægju minni með að þetta frumvarp skuli vera komið fram. Það var á hæstv. utanríkisráðherra að heyra í vikunni að vænta mætti tillagna til stuðnings veitingageiranum sem líður mikið fyrir skerðingar á opnunartíma. Það eru þó ekki bara skerðingar á opnunartíma og lokanir sem hafa mikil áhrif heldur einnig hræðsla fólks við sækja þá staði sem þó eru opnir vegna hræðslu við að smitast. Því eru aðgerðir brýnar og nauðsynlegar.

Ég kem af svæði sem hefur farið verulega illa út úr kórónuveirufaraldrinum, svæði sem hefur þurft að upplifa mikið atvinnuleysi og sér ekki fyrir endann á því þótt talsvert hafi dregið úr því. T.d. má rekja 40% af efnahagsumsvifum svæðisins til flugstöðvarinnar og afleiddra starfa tengdra henni. Það gefur því augaleið að samdrátturinn á því sviði kemur sér afar illa, bæði fyrir fyrirtæki og fjölskyldur. Allar aðgerðir sem geta ýtt undir og stutt við atvinnurekstur eru því fagnaðarefni. Hins vegar þykir mér kúnstugt að mikið af því sem verið er að gera núna er gert í miklum flýti og án nokkurs aðdraganda. Fjárlög gerðu ráð fyrir að allt yrði í himnalagi. Túristarnir myndu bara streyma til landsins og ekki þyrfti að gera ráð fyrir vinnumarkaðsúrræðum eða stuðningsúrræðum af neinu tagi. En vegna þess að veiran er viðsjárverður andstæðingur hefur annað komið í ljós.

Einhverra hluta vegna hafði ég gert ráð fyrir að einhverjar sviðsmyndir yrðu teiknaðar upp þar sem gert væri ráð fyrir ýmiss konar útkomum eða niðurstöðum. Hvað ef? Hvað ef spá um fjölda ferðamanna rætist ekki? 100.000 ferðamenn sem koma ekki minnka tekjur um 26 milljarða. Við sjáum tölfræðilega vinnu hjá Landspítalanum og sóttvarnayfirvöldum og spár fyrir bjartsýnar og svartsýnar útkomur. Engin slík sviðsmyndagreining virðist vera á borði ríkisstjórnarinnar, a.m.k. kemur slík greining ekki fram í nýsamþykktum fjárlögum. Slík vinna hefði auðveldað okkur vinnuna. Þess í stað erum við sífellt að samþykkja eitthvað í einhverju óðagoti sem býður upp á að mistök verði gerð og að einhverjir falli milli skips og bryggju. Það má m.a. nefna að við frumvarpið var strax flutt breytingartillaga um að flokkur IV yrði með í þessu á sama hátt. Þá hafði ekki verið gert ráð fyrir flokki IV í því frumvarpi sem við vorum að vinna með í byrjun vikunnar um frestun á gjalddögum. Það er greinilega verið að vinna þetta með miklu hraði. Það verður efnahags- og viðskiptanefndar að rýna þau skilyrði sem sett eru í frumvarpinu og veita umsagnaraðilum tækifæri til að lýsa sinni skoðun á því.

Ég vil einnig nota þetta tækifæri og lýsa áhyggjum mínum af sviðslistafólki sem virðist ekki eiga í nein hús að venda. Margt af því starfar sem einyrkjar úti á markaði og þarf að harka frá degi til dags með ótryggar tekjur. Þegar lokað hefur verið fyrir allt tónleikahald, leiklistarsýningar og aðrar uppákomur stendur þessi hópur utan garðs, er tekjulaus og sér enga lausn á sínum málum. Það er því bráðnauðsynlegt að staða hans sé skoðuð og komið til móts við hann með einhverjum hætti.

Virðulegur forseti. Þetta frumvarp gengur nú til efnahags- og viðskiptanefndar að aflokinni 1. umr. og þörf á því að þar fái það nauðsynlega og efnislega úttekt og verði til hagsbóta fyrir þá hópa sem mest þurfa á því að halda.