152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

styrkir til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.

232. mál
[15:44]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Sú umræða sem hefur átt sér stað hér í dag, ég hygg að ég hafi náð að fylgjast með henni að stærstu leyti, um þetta frumvarp um styrki til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma, hefur verið mjög gagnleg. Ég ætla ekki að nota orðið ánægjuleg en hún hefur verið málefnaleg. Fram hafa komið, bæði frá stjórnarþingmönnum og þingmönnum stjórnarandstöðunnar, ágætar ábendingar og ég hygg að efnahags- og viðskiptanefnd muni fara yfir þær. Mér finnst þetta minna á það þegar við vorum að kljást við að smíða stuðningsúrræði á fyrstu mánuðum þessa ömurlega faraldurs og hvernig okkur tókst hér á þingi sameiginlega, stjórn og stjórnarandstöðu, að vinna saman að úrræðum. Auðvitað greindi okkur á um einstakar útfærslur o.s.frv., en allir voru með réttan fókus að því leyti að menn vildu grípa til aðgerða eins fljótt og hægt væri.

Það verður að segjast eins og er að þegar farið er yfir það sem gert hefur verið þá getum við verið þokkalega sátt þegar kemur að efnahagslegum stuðningsaðgerðum, hvort heldur er við heimili eða fyrirtæki. Það er a.m.k. mat sérfræðinga Efnahags- og framfarastofnunar OECD sem gáfu íslenskum stjórnvöldum, og þar með talið auðvitað þingmönnum sem unnu að þessum stuðningsaðgerðum, þá einkunn að brugðist hefði verið djarflega við efnahagslegum afleiðingum kórónuveirunnar en um leið sveigjanleika beitt í aðgerðum.

Þegar við fjöllum um frumvarp af þessu tagi, um stuðning ríkissjóðs við einstakar atvinnugreinar, í þessu tilfelli veitingarekstur, er vert að hafa í huga að ekkert samfélag, og það skiptir engu máli hversu öflugt efnahagslífið er í grunninn, fær staðist til lengri tíma ef komið er í veg fyrir efnahagslega starfsemi borgaranna, ef komið er í veg fyrir að verðmætin séu sköpuð. En við höfum tekið þá ákvörðun, í baráttu við það sem var í upphafi hættuleg veira, að draga úr verðmætasköpun og lama hluta viðskiptalífsins. Við höfum talið það réttlætanlegt, a.m.k. fram til þessa þó að orðin séu sterk rök fyrir því að sú réttlæting sé ekki í gildi núna, að í varnarbaráttu sé aðalatriðið að verja líf og heilsu þjóðar og síðan að taka hraustlega til hendinni að glíma við þau efnahagslegu áföll sem því fylgja. Þessi barátta er auðvitað ekki án kostnaðar en því miður er hluti kostnaðarins dulinn og verður illa metinn og aldrei til fjár. Hann hefur komið fram en mun líklegast einnig koma fram á næstu árum. Við eigum erfitt með að átta okkur á því hvaða áhrif veirufaraldurinn og þær sóttvarnaaðgerðir eða takmarkanir sem settar hafa verið á hafa t.d. á geðheilbrigði þjóðarinnar. Ég hygg að í þessum þingsal muni þurfa að ræða þau mál sérstaklega og einstakir þingmenn hafa vakið athygli á því. Og einhvern kostnað eigum við líka eftir að sjá vegna takmarkana þegar um almenna lýðheilsu er að ræða.

Við sem samfélag höfum ákveðið að leggja þyngri byrðar — þá er ég að tala um efnahagslegar byrðar, ég er ekki að tala um heilsu heldur efnahagslegar byrðar — á ákveðna hópa samfélagsins. Síðustu vikur eru það fyrst og fremst eigendur og starfsmenn öldurhúsa og veitingastaða sem hafa þurft að sætta sig við að hreinlega loka starfsemi og/eða sæta svo miklum takmörkunum að það er eiginlega ekki hægt að ætlast til þess að menn haldi áfram rekstri að óbreyttu.

Hér áður, ef við förum lengra aftur í tímann, voru það auðvitað fleiri aðilar sem þurftu að axla þessar byrðar fyrir okkur, allt frá rakarastofum og hárgreiðslustofum til líkamsræktarstöðva o.s.frv. og þá er auðvitað ónefndur sá skaði sem ýmsir aðrir hafa orðið fyrir vegna almenns samdráttar í eftirspurn eftir þjónustu þeirra. Ekki hafa listamenn heldur farið varhluta af skertu atvinnufrelsi. Það er því eðlilegt og sanngjarnt að við sameiginlega, í gegnum sameiginlegan sjóð okkar, ríkissjóð, komum til móts við þessa aðila, að við með einum eða öðrum hætti reynum eftir bestu getu að bæta a.m.k. það fjárhagslega tap sem við höfum gert þeim að sæta með takmörkunum á starfsemi þeirra. En slíkar stuðningsaðgerðir, eins og við erum að ræða um hér, eru ekki bara til að dreifa byrðunum aðeins meira á okkur öll, að við tökum þátt í þessu verkefni og látum ekki fámennan hóp, starfsmenn og eigendur ákveðinna fyrirtækja bera byrðarnar, heldur að við komum þeim til aðstoðar. Það er ekki síður mikilvægt að hafa það í huga þegar við ræðum þetta frumvarp og þegar við ræðum aðrar stuðningsaðgerðir sem við þurfum að taka afstöðu til hér á næstu dögum og hugsanlega vikum, ég vona að það verði ekki mánuðir, að við erum með slíkum aðgerðum að verja framleiðslugetu samfélagsins. Við erum að tryggja innviðina. Við erum að tryggja hugvitið, þekkinguna og framtaksþróttinn sem einkennir íslenskt samfélag. Við vitum að öflugt viðskiptahagkerfi er auðvitað forsenda þess að okkur takist að byggja upp öflugt samfélag og góð lífskjör og er forsenda þess að við getum rekið hér velferðarkerfi sem við getum verið stolt af. Ég vildi segja þetta, frú forseti, í þessari umræðu.

Ég get farið í einstaka liði í þessu frumvarpi. Ég tek undir þá gagnrýni sem kom fram fyrr í dag að þrepin hér eru fullbrött, höggið sem menn verða fyrir særir ákveðna réttlætiskennd. Fyrirmyndirnar eru auðvitað til staðar í þeim aðgerðum sem við höfum þegar samþykkt og hafa að mestu skilað gríðarlega góðum árangri en ég get upplýst að það kom til umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd hvort menn ættu, í stað þess að vera með svona þrep í tekjufalli, í þessu tilfelli 20% og 60%, að beita einfaldri línulegri nálgun, þ.e. að styrkurinn sem menn hefðu rétt á yrði í hlutfalli við tekjurnar en það kæmu ekki svona högg. Mér til mikillar ánægju voru það m.a. þingmenn Samfylkingarinnar sem bentu á þetta, t.d. Jóhann Páll Jóhannsson, og ég tek undir þá gagnrýni vegna þess að það er akkúrat gagnrýni sem ég hef sett fram, m.a. á þrepaskipt tekjuskattskerfi einstaklinga. Ef þessi röksemd, og ég tek undir hana, á rétt á sér — þ.e. gagnrýnin á að þrepaskiptingin sé óeðlileg hér og það sé betra að vera með línulegt fall eins og félagi minn, hv. fyrrverandi þingmaður, Smári McCarthy, benti á og ég tók undir í sjálfu sér en við gátum ekki breytt því — þá gildir það sama um útfærslu þegar kemur að tekjuskattskerfi einstaklinga. En ég ætla nú ekki að fara út í það.

Frú forseti. Ég vona að það takist að vinna þetta frumvarp hratt og vel í efnahags- og viðskiptanefnd og ég heyrði það á þeim nefndarmönnum, bæði frá minni og meiri hluta, sem hér hafa tekið til máls að það verði mjög góð samstaða í nefndinni þó að menn geti greint á um einstaka útfærslur o.s.frv. Menn vita það, eins og hefur gerst áður á undanförnum mánuðum í þessari baráttu, að menn hafa borið gæfu til þess að taka höndum saman og jafnvel sætt sig við að ná ekki öllu sínu fram.