152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

styrkir til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.

232. mál
[15:57]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég ætla ekki að bresta á með langri ræðu. Ég vil taka undir það sem hefur komið fram hér öðru hverju í dag, að svo virðist sem ríkisstjórnin sé að gleyma mikilvægum hópi fólks. Um er að ræða listafólk, sviðslistafólk, allan sviðslistageirann sem hefur orðið fyrir ofboðslegu tekjufalli á síðustu tveimur árum og ekki bara sviðslistafólk heldur líka allan þann afleidda geira sem starfar með sviðslistafólki. Þá er ég að tala um allan tæknigeirann. Ég hafði af því fregnir í desembermánuði að við fyrstu þrengingu, við fyrstu takmarkanir sem urðu í desember, varð einn og sami aðilinn, sem leigir út græjur og annast það og annast hljómflutning og að hlutirnir nái að berast, af 20 milljóna bókun á einni helgi. Þetta eru svakaleg tekjuföll og mér brá svolítið að sjá á þeim ríkisstjórnarfundi þegar komið var út og þetta tilkynnt að í rauninni værum við enn þá á þeim stað að hugsa eingöngu um að auka við starfslaunasjóðina. Það er auðvitað góðra gjalda vert af því að það eru líka einstaklingar þarna í hagkerfinu sem geta leitað þangað. En félögin sem reka t.d. leikhús, sem hýsa leiksýningar, óhagnaðardrifin félög, Leikhópurinn Lotta, Tjarnarbíó, leikfélög hringinn í kringum landið — jafnvel Leikfélag Reykjavíkur er félagsskapur og af því að þetta er óhagnaðardrifinn félagsskapur þá ná þau ekki inn í það styrkjafyrirkomulag sem við höfum búið til. Ákveðið var að fara í sérstakan stuðning við Leikfélag Reykjavíkur sem slíkt en aðrir hópar hafa lent algjörlega á milli þessi tvö ár. Ég hef heyrt bæði hjá þeim og í veitingageiranum að það sem gæti komið til aðstoðar þar, fyrir utan það sem er verið að gera hérna, og ætti að smíða eitthvað sambærilegt og er núna verið að gera fyrir veitingastaðina, sé að endurvekja hlutastarfaleiðina. Hvers vegna? Jú, af því að það var það úrræði sem nýttist langsamlega best á þessum síðustu tveimur árum. Það var það úrræði sem var sótt mest í, nýttist best og var ekki með svona ofboðslega flóknum og erfiðum skilyrðum. Það var virkilega verið að vinna í því að láta það ganga upp og þurfti auðvitað að slípa það til. Listafólk lenti margt hvert í vandræðum í samskiptum við Vinnumálastofnun. En ég hef heyrt að í veitingageiranum myndi þetta koma í veg fyrir t.d. miklar uppsagnir strax um næstu mánaðamót.

Ég vil tala fyrir þessari leið almennt fyrir báða þessa hópa, bæði sjálfstæðu hópana, sviðslistafólkið, og fyrir veitingageirann, að við endurvekjum hlutabótaleiðina. En varðandi sviðslistafólkið og afleiddar greinar þá þurfum við að gefa þeim tækifæri líka, veita þangað styrki til þess að þau hverfi ekki þegar okkar eðlilega líf kemur aftur, ef svo má segja. Ég held að við viljum ekki standa uppi eftir þessa tveggja ára baráttu með snauðara samfélag þar sem listir og menning hafa orðið algjörlega undir. Ég vænti þess að við getum í þessari vinnu reynt að auka við gildissviðið, mögulega þannig að það taki til fleiri hópa, eða koma með einhvers konar breytingartillögur þannig að við séum ekki bara að beina þeim inn í eitthvert umsóknarferli inn í starfslaunasjóðina eins og menntamálaráðherra talaði um. Að öðru leyti styð ég að sjálfsögðu tilgang frumvarpsins sem við erum að fjalla um í dag en geld eins og áður sagði varhuga við að við höfum þetta of þröngt og flókið og útilokum aðra hópa sem eru að verða fyrir verulegu falli.

Að lokum vil ég segja að ég kallaði eftir alvöruaðgerðum varðandi geðheilsu þjóðarinnar og hef verið óþreytandi þessi tvö ár að benda á að raunverulegar aðgerðir, líkar þeim sem við erum að horfa á hér, hafa í rauninni ekki komið fram enn þá. Hér eru nefnd einhver geðheilsuteymi og svona en ég velti fyrir mér hvar stóru fundirnir séu þar sem þríeykið kemur og ræðir um andlega líðan þjóðarinnar. Við erum strax byrjuð að fá niðurstöður rannsókna varðandi andlega heilsu ungs fólks sem hrakar mjög, andlega heilsu vinnandi fólks, sérstaklega á lágum launum, sem hefur hrakað mjög o.s.frv. Að lokum, við þessa umræðu, varðandi styrki til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkun á opnunartíma, minni ég bara á þetta: Við getum ekki og megum ekki skilja þennan þátt eftir.