152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

styrkir til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.

232. mál
[16:07]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það liggur ekki fyrir frumvarp um það úrræði. Ég talaði áðan um þau áform. Þetta er eitt af því sem rætt var örlítið í samhengi við frumvarpið á föstudaginn var og svo núna og er eitt af því sem hagræni hópur Stjórnarráðsins er að skoða. Hvernig það frumvarp myndi líta út nákvæmlega og fyrir hvaða tímabil eða hver skilyrðin yrðu liggur ekki fyrir í dag. Sú vinna er í gangi og má gera ráð fyrir að það skýrist á allra næstu dögum. Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um það heldur er það einn þeirra þátta sem skoðaðir eru þegar kemur að stuðningi vegna þeirra ráðstafana sem nú eru, þ.e. sóttvarnaráðstafana og efnahagslegra viðbragða vegna þeirra. Bæði frumvarpið síðan á föstudag, sem nú er orðið að lögum, og það sem við fjöllum um hér, eru sértæk og snúa að ákveðnum geirum. Við sögðum það á föstudaginn var og sú vinna hefur verið í gangi þessa viku, samtal við þá geira og skoðun og greining á þeirri stöðu sem mögulega yrði þá almennara úrræði en ekki bundið við veitingageirann til að mynda, eins og við höfum verið að fjalla um hér.