152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

styrkir til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.

232. mál
[16:09]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessi svör. Eins og ég kom inn á í ræðu í dag er einmitt mikilvægt að feta ákveðinn gullinn meðalveg milli hins almenna og hins sértæka. Við viljum ekki að úrræði séu of almenn og að verið sé að nýta fjármuni illa inn í geira sem ekki þurfa á þeim að halda. En við viljum heldur ekki sníða aðgerðirnar þannig að þær séu svo sértækar að fyrirtæki sem virkilega þurfa á stuðningi að halda og eru lífvænleg, eða væru það undir ögn venjulegri kringumstæðum, falli einhvern veginn milli skips og bryggju í stuðningsaðgerðum stjórnvalda. Ég fagna því að það séu uppi hugmyndir um að framlengja viðspyrnustyrkina í einhverri mynd. Þetta eru auðvitað furðulegir tímar sem við lifum á, en ég kalla eftir eins miklum fyrirsjáanleika og unnt er að veita rekstraraðilum þarna úti og þá frekar skýrum áætlunum um það hvað stendur nákvæmlega til að gera.

Mér finnst ankannalegt að hæstv. fjármálaráðherra sé ekki á meðal okkar í dag núna þegar þessar stóru og mikilvægu aðgerðir, sem skipta mjög miklu máli fyrir mjög marga í samfélaginu, eru til umræðu hér á löggjafarsamkundunni og í undirbúningi í ráðuneyti hans. En ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin.