152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[17:04]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir þetta svar. Það sem ég var að reyna að koma orðum að áðan var að það ráðuneyti sem nú fer með þá þjónustu að meðhöndla umsóknir og sú stofnun sem fer með þá þjónustu fyrir hönd ráðuneytisins hafa sýnt að þau virða hvorki lög né mannréttindi þeirra sem þarna eru að sækja um. Því finnst mér alvarlegt að það skuli ekki hafa verið rætt innan nefndarinnar að slíkar breytingar yrðu gerðar.

En mig langar að spyrja hv. framsögumann nefndarinnar um annað. Í þingsályktunartillögunni kom ekki fram kostnaður, hvað þetta myndi kosta. Maður hefur heyrt tölur allt að 450–500 millj. kr. sem þessar breytingar muni kosta. Ég sé ekki í nefndarálitum neinar upplýsingar um kostnað og langar því að spyrja hv. framsögumann hvort nefndin hafi fengið uppfært kostnaðarmat eða hvort við erum að gera hér breytingar með óútfyllta ávísun til Stjórnarráðsins til að fara í þetta. Hvort sá peningur sem í þetta á að fara ætti ekki frekar að vera notaður í eitthvað skárra eins og t.d. að bæta geðheilsu fólks eða í stuðning við flóttafólk.