152. löggjafarþing — 27. fundur,  26. jan. 2022.

störf þingsins.

[15:03]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Árið 2020 létu 106 einstaklingar lífið hér á landi þar sem dánarorsök þeirra var skilgreind sem geð- og atferlisröskun. Geð- og atferlisraskanir eru sjötta algengasta dánarorsök Íslendinga samkvæmt tölum frá landlæknisembættinu það árið. Sama ár létust 47 einstaklingar vegna sjálfsvíga og 37 einstaklingar létust vegna lyfjanotkunar. Í skýrslu sem gerð var um heilsufar og heilbrigðisþjónustu árið 2021 kemur fram að 7,5% af innlögnum á sjúkrahús árið 2019 var vegna geð- og atferlisraskana. Þrátt fyrir þetta háa hlutfall hefur verið tekin sú ákvörðun að fækka innlagnarplássum um tíu á geðdeildum Landspítala. Forsvarsmenn Landspítala rökstyðja þessa lokun með því að það sé skortur á læknum og hjúkrunarfræðingum á spítalanum. Þá er sömu sögu að segja með skort á starfsfólki hjá geðheilsuteymum hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Það er gömul saga og ný að Íslendingar séu leiðandi á Norðurlöndum í hvers kyns lyfjanotkun. Árið 2018 var fimmta hver kona á Íslandi á þunglyndislyfjum, 11.000 einstaklingar á svefnlyfjum og notkun hættulegra róandi efna eins og Oxycontin hefur aukist til muna síðustu ár. Árið 2011 fengu 500 manns lyfið uppáskrifað en á síðasta ári voru það 3.500 einstaklingar sem fengu það sama lyf. Á hjúkrunarheimilum árið 2018 var geðlyfjanotkun 55% og þar af leiðandi er meira en helmingur þeirra sem eru á hjúkrunarheimilum á einu eða fleiri geðlyfjum. Sömu sögu er að segja um börn á Íslandi með notkun geðlyfja og róandi lyfja. Við erum á rangri leið þegar við erum að setja met í geðlyfja- og svefnlyfjanotkun á Norðurlöndum og það verða allt of mörg ótímabær dauðsföll vegna þessa. Ég krefst þess að eitthvað verði gert í þessum málum eins og skot.