152. löggjafarþing — 27. fundur,  26. jan. 2022.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Almenningur á Íslandi veltir því sjaldnast fyrir sér þegar hann nýtir sér opinbera þjónustu hver greiðir fyrir hana, heldur bara að þessi þjónusta sé til staðar. Staðreyndin er hins vegar sú að sá sem veitir nærþjónustuna tekur nær alltaf höggið þegar skortur er á þjónustuúrræði sem íbúar þurfa á að halda. Sveitarstjórnarfólk fær skammir ef ekki er til staðar almennileg heilbrigðisþjónusta og úrræði fyrir eldra fólk þó að þessi þjónustuúrræði séu á forræði ríkisins.

Það leiðir hugann að verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga en um leið að tekjuskiptingu. Það er engum vafa undirorpið að rétt er að veita þjónustu við íbúa eins nærri þeim og hægt er. Það gerir þjónustuna mannlegri og auðveldar öll samskipti. Sveitarfélögin tóku yfir málefni grunnskólanna árið 1996 og málefni fatlaðra árið 2011 og síðan þá hafa þessir málaflokkar bara vaxið og vaxið. Með auknum þjónustukröfum og hærri launum geta þessir málaflokkar ekki gert neitt annað. Þá sinna sveitarfélög ýmsum málaflokkum sem ekki er lögbundið að þau sinni, svo sem leikskólum, að byggja mannvirki fyrir íþrótta- og tómstundastarf og sinna ýmiss konar þjónustu sem þykir bæði eðlileg og sjálfsögð. Því hefur umræðan um tekjustofna sveitarfélaga verið hávær án þess að það hafi skilað ásættanlegri niðurstöðu. Kerfið er hannað þannig að flest sveitarfélög eiga erfitt með að standa undir þeim verkefnum sem þeim er gert að sinna og mörg þeirra eiga erfitt með að skila jákvæðri rekstrarniðurstöðu. Þá bíður sveitarfélaga veruleg fjárfesting í innviðum, svo sem skóla- og íþróttamannvirkjum, í frárennslismálum og byggingu nýrra hverfa samhliða íbúafjölgun. Því er brýnt að endurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaga gangi bæði hratt og vel fyrir sig.