152. löggjafarþing — 27. fundur,  26. jan. 2022.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil vekja athygli á þremur þingmálum sem ég flyt hér eftir 12 ára þingsetu og nú sem varaþingmaður í nokkra daga. Það eru mál sem snúa að Álftafjarðargöngum. Súðavíkurhlíðin er stórhættuleg, eins og menn vita. Þann 16. janúar féllu þar sex snjóflóð og veturinn 2018 féll þar 61 snjóflóð. Þetta er ekki boðlegt fyrir íbúa í Súðavík eða íbúa á norðanverðum Vestfjörðum að fara þessa þjóðleið. Það verður að koma Álftafjarðargöngum sem fyrst inn á endurskoðaða samgönguáætlun og skora ég á innviðaráðherra að gera það hratt og vel.

Annað mál sem ég vek athygli á er hvernig félagslegi hluti fiskveiðistjórnarkerfisins er nýttur. Ég hef lagt fram fyrirspurn þar sem ég óska eftir að það verði útlistað og útfært hvernig sá hluti hefur lent í höndum hverrar útgerðar og hvernig hann nýtist í byggðafestu, eins og upphaflega var ætlað. Það verður fróðlegt að sjá þá úttekt í svörum við fyrirspurn minni um þau mál.

Í þriðja lagi legg ég fram frumvarp um að strandveiðar verði tryggðar í sumar, í 48 daga, með tilfærslu aflaheimilda milli fiskveiðiára, sem ég tel vera mögulegt, innan vísindalegrar ráðgjafar Hafró. Það hefur verið gert oftar en einu sinni varðandi stórútgerðina með ýmsum hætti að leyfa aflaflutning veiðiheimilda á milli ára. Það verður að tryggja strandveiðar í sumar. Það er svo mikið undir í þessum byggðum og það má ekki gerast að þessi hópur innan fiskveiðistjórnarkerfisins, sem er að berjast í því að reyna að halda sínum litlu útgerðunum á floti og skapa vinnu í landi og tryggja vinnu á þessum veiku stöðum, litlu sjávarbyggðum — það verður að horfa til þess og tryggja strandveiðar í sumar.