152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

253. mál
[15:44]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Ég sit ásamt hv. þingmanni sem talaði hér áðan, Jóhanni Páli Jóhannssyni, og mörgum öðrum í efnahags- og viðskiptanefnd og við höfum með einhverjum hætti verið að afgreiða hlutina á handahlaupum og í einhverri færibandaafgreiðslu að undanförnu. Mig langar að minna á að í fjárlagagerðinni fyrir áramót var á það bent að það væri sérstakt að kasta öllum viðspyrnustyrkjum út þar sem við værum að glíma við verulegt atvinnuleysi á mörgum svæðum og værum heldur ekki búin að ná utan um veiruna, enda kom það á daginn strax um miðjan desember að stór hópur fólks hrundi niður vegna nýs afbrigðis. Við höfum m.a. verið að afgreiða frestun á gjalddögum og við erum núna með til meðferðar í nefndinni frumvarp til stuðnings veitingageiranum. Í samtali við veitingamenn, sem eru margir hverjir komnir á heljarþröm, kom í ljós að þeir áttu ekki fyrir næstu mánaðamótum sem renna upp á mánudaginn. En á sama tíma fengum við upplýsingar frá starfsmönnum Skattsins um að það tæki a.m.k. þrjár vikur að ganga þannig frá tæknimálunum að hægt væri að sækja um og síðan tæki úrvinnsla umsókna einhverjar vikur til viðbótar.

Það hefur komið í ljós í umræðunni marga undanfarna daga að málið sem nú liggur á borðinu dugar engan veginn til að ná utan um alla þá hópa sem eiga við veruleg vandamál að etja þessa dagana. Það eru fleiri en veitingamenn. Lokunarstyrkir, sem verið er að ræða hér, ná bara ekki alveg utan um það allt saman. Það eru ekkert allir sem hafa þurft að loka, en aðsóknin varð engin vegna þess að fólk er hrætt við veiruna. Ég, eins og aðrir, fagna því að viðspyrnustyrkirnir séu að koma til baka en maður myndi gjarnan vilja fara að sjá til hverra þeir eiga að ná. Við erum með hópa sem eiga erfitt uppdráttar og falla illa undir þau úrræði sem verið er að búa til. Mixermaðurinn sem er einyrki, og fær bara djobb þegar hljóðfæraleigan hefur djobb, fær ekkert lokunarstyrk. Hann fær bara ekkert djobb.

Mig langar líka að benda á íþróttahreyfinguna. Við vorum síðast í morgun í bæjarráði Reykjanesbæjar að fjalla um erindi frá íþróttafélögunum sem eru mörg hver komin upp við vegg, sérstaklega þær deildir sem reka sína starfsemi á veturna og starfsemi þeirra byggist að verulegu leyti á því að það séu áhorfendur, á sölu miða á leiki. Við sjáum t.d. í sjónvarpsútsendingum, í beinum útsendingum, á körfuboltaleikjum að áhorfendur hafa horfið þannig að þessar íþróttagreinar eru í verulegum vanda og það þarf að koma þeim til bjargar. Það þyrfti að skoða möguleikana á því að styðja við íþróttahreyfinguna sem hefur svo sannarlega sannað gildi sitt í lýðheilsu- og uppeldismálum hér á landi.

Það skiptir máli hvaða hópa er verið að reyna að ná utan um. Það skiptir máli að reyna að sjá til þess að öllum þeim sem eiga um sárt að binda eftir þennan faraldur verði hjálpað með einhverjum hætti.