152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Í síðustu viku lá fyrir samantekt Barnaverndarstofu um fjölda tilkynninga um brot gegn börnum. Samantektin leiðir í ljós að tilkynningum hefur fjölgað um tæp 17% á Covid-árunum 2020 og 2021 — 17%. Ef einhvern tímann hefur verið erfitt að hafa hemil á tilfinningum sínum í þessum ræðustól þá er það einmitt núna. Á árinu 2021 bárust tæplega 40% fleiri tilkynningar um kynferðisofbeldi gegn börnum en á árinu 2020. Ef miðað er við 2019 er munurinn enn meiri, eða sem nemur um 52%. Það, virðulegi forseti, er þróun í þveröfuga átt. Það er með öllu óásættanlegt ástand sem ekki verður við unað.

Tilkynningum frá skólum og í heilbrigðiskerfinu hefur á tímabilinu einnig farið fjölgandi. Gera má ráð fyrir því að tilkynningar frá fagaðilum séu byggðar á rökstuddum grun og ber að taka þessa fjölgun grafalvarlega. Á bak við hvern þann sem fjölgar um liggja mörg mannslíf í rúst, sár sem aldrei gróa, líf sem aldrei verður samt. Ástæða er til að hafa áhyggjur af námsframvindu barna í framhaldinu en tilkynningum um vanrækslu barna vegna náms hefur fjölgað sérstaklega mikið og má leiða að því líkur að takmarkanir vegna sóttvarnaaðgerða hafi haft gríðarleg áhrif þar. Það þarf að spyrja spurninga um framhaldið: Hvernig á að styðja við þessi börn svo vanrækslan hafi ekki langvarandi áhrif á námsframvindu þeirra? Ég mun leggja fram fyrirspurn til barnamálaráðherra til að kalla fram viðbrögð við þessu. Ég tel það eitt brýnasta verkefni okkar hér að láta ekki þessa þróun, sem ógnar heilsu og velferð barnanna okkar, óátalda án markvissra aðgerða og viðbragða. Ég hvet ráðherra barnamála og þingheim allan til að standa með börnunum.