152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

störf þingsins.

[15:08]
Horfa

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Í dag vil ég ræða um fjarskipti í dreifbýli. Nú er staðan þannig að ljósleiðari hefur verið lagður í dreifbýli um allt land, sem er frábært, og á síðasta kjörtímabili var mikil vinna lögð í verkefnið Ísland ljóstengt. Það verkefni snýst um að tengja dreifbýli betur og voru miklar framkvæmdir og áætlanir í tengslum við það. Hæstv. ráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, lagði mikla vinnu í þetta. Nú hefur nýtt ráðuneyti tekið við þessum málaflokki og það er mikilvægt að nýr ráðherra fjarskiptamála, hæstv. ráðherra Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, láti sig fjarskiptamál í dreifbýli sérstaklega varða.

Við lagningu ljósleiðarans var klippt á koparvír sem tengdist í heimasíma á bæjum og þetta hefur orðið þess valdandi að stundum er ekki mögulegt að ná símasambandi. Símasamband er mikilvægt öryggisatriði sem og mjög mikilvægt í daglegu lífi. Til að leggja áherslu á mál mitt ætla ég að taka Dalabyggð sem dæmi. Í dag fengu þingmenn Norðvesturkjördæmis tölvupóst um stöðu fjarskiptamála í sveitarfélaginu. Sjálf þekki ég ágætlega til þar sem ég hef búið í Dalabyggð en þar er staðan sú að á mörgum heimilum í dreifbýlinu er lítið eða ekkert símasamband. Það þýðir að ekki er hægt að ná í foreldra eða forráðamenn ef eitthvað kemur upp á hjá börnum í skólum. Það þýðir að ekki er möguleiki fyrir íbúa að hringja eftir aðstoð ef eitthvað kemur upp á. Verðandi foreldrar verða að fara að heiman mörgum dögum fyrir fæðingu vegna þess að þau geta ekki treyst á að ná sambandi við viðbragðsaðila og íbúar eiga ekki möguleika á því að nota rafræn skilríki heima hjá sér því að innskráningarbeiðnin er útrunnin loksins þegar hún kemur í símanum. Íbúar fá þau skilaboð að fjarskiptafyrirtækjum þyki of kostnaðarsamt að bæta farsímasamband á fámennum svæðum. Slík svæði finnast um allt land. Mikilvægt er að fara í kortlagningu á þessu og ég hvet hæstv. ráðherra fjarskiptamála til að bæta öryggi íbúa í dreifðum byggðum.