152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

búvörulög og búnaðarlög.

118. mál
[14:58]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þórarni Inga Péturssyni fyrir að taka iðulega þátt í þessari umræðu þegar hann hefur haft færi til og komið með málefnalegar ábendingar hvað þetta varðar. Samkeppniseftirlitið hefur sent umsögn um þetta mál, og fleiri sem þessu tengjast, og það fettir ekki fingur út í það að hægt sé að jafna út kostnaðinn við að sækja mjólkina. Sama hvar bændur eru búsettir þá eigum við að hafa þannig kerfi að það sé tryggt að sú mjólk verði sótt og þeir fái sama verð. Við reynum að ýta undir það og tryggja. Það er alveg hægt. En eins og lögin eru byggð upp núna þá erum við að tryggja fákeppni á framleiðslu á mjólkurafurðum. Við erum að gera það. Það er eitt fyrirtæki sem hefur ægivald yfir markaðnum. Það hefur að mínu mati torveldað þróun, þótt við sjáum nú blessunarlega stórkostlega þróun eins og t.d. hjá Örnu á Vestfjörðum, af því að þar hafa bændur sameinast um að senda mjólkina þangað. Það er auðveldara fyrir Örnu að fá mjólk fyrir vestan en það vantar samt líka.

Mér finnst samt erfitt að hugsa um öll þau glötuðu tækifæri, tækifæri sem ég held að við höfum misst af af því að við erum ekki með alvörusamkeppni. Ég trúi því að með samkeppninni værum við með enn fjölbreyttari mjólkurmarkað en við erum með þó að þróunin í mjólkuriðnaði hafi verið gríðarlega jákvæð, vöruþróunin. Ekki spurning. En við getum gert enn meira og enn betur. Ég vil líka undirstrika það sem hefur verið sagt af fleirum í gegnum tíðina að við þurfum að passa okkur á því þegar við ræðum þessi mál að etja ekki fólki alltaf saman, etja ekki hópum saman. (Forseti hringir.) Mér finnst þetta kerfi vera meingallað, ég er búin að fara yfir það. Það þarf að breyta því (Forseti hringir.) og við eigum að geta gert það án þess að þurfa sífellt að etja hópum saman og ég spyr: Hagsmunum hverra er þar verið að þjóna?