152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

búvörulög og búnaðarlög.

118. mál
[15:02]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er samkeppni á markaði en ekki innan allra greina landbúnaðarins. Við vitum það líka, þegar við sjáum verðbólguþróunina núna, en líka á síðasta kjörtímabili þegar matvaran hækkaði töluvert, hvaða hluti matvörunnar hækkaði mest. Hver var það? Var það grænmetið? Nei, það er meiri samkeppni þar. Það voru einmitt mjólkurvörurnar. Þau atriði hækkuðu mest sem voru undanþegin samkeppni, þar sem voru hæstu tollarnir, mesta verndin. Þeir þættir til neytenda hækkuðu mest. Svo eru menn að segja að kerfið hafi ekki áhrif. Auðvitað hefur það það. Við sjáum að þar sem samkeppnin blómstrar, þar sem er meira frelsi, helst verðbólgan og verðhækkanirnar meira niðri. En þar sem er meiri fákeppni, meiri einokun, verður meiri hækkun. Tilviljun? Nei, ekki að mínu mati. Þetta er hluti af ástæðunni fyrir því að við erum að leggja fram þetta frumvarp. Það er hægt að ná fram meira réttlæti, meiri samkeppni fyrir alla þá aðila sem ég er að tala um, bændur sem neytendur.