152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

búvörulög og búnaðarlög.

118. mál
[15:43]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil enn og aftur þakka fyrir þessa góðu umræðu sem verið hefur. Það er mikilvægt að við veltum við þeim hlutum. Ég hugsaði það meira í gamni áðan að núna styttist óðum í það að við hættum að eyða tíma í að ræða um Covid þannig að ég held að við ættum þá að taka góðan tíma í það, svona út þetta þing, að ræða landbúnaðarmál. Ég á von á því að hv. þingmenn Sigmar Guðmundsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir séu í liði með mér í því að ræða landbúnaðarmál eitthvað fram á vorið.

En byrjum aðeins á því sem frumvarpið fjallar um, þ.e. afnám 71. gr. búvörulaga, sem snýr að mjólkuriðnaði, framleiðslu mjólkur. Eins og komið var inn á fyrr í dag var þetta sett á á sínum tíma til þess að bæta hag framleiðenda og gera vinnsluna arðvænlegri og ná fram hagræðingu í greininni. Það má með sanni segja að það hafi tekist allvel til í þeim málum. Vissulega er tollvernd þarna á bak við líka. En ef við horfum fyrst og fremst á greinina sjálfa þá var sett hagræðingarkrafa á greinina þegar þetta var gert og farið í gríðarlega uppstokkun og endurskoðun á afurðastöðvakerfinu í mjólkuriðnaði. Ég ætla bara að leyfa mér að fullyrða það hér að ef það eru einhverjir bændur í hinum hefðbundna landbúnaði sem eru svona sæmilega digrir um sig þá eru það þeir sem eru í þessari grein.

Ég þekki alveg ágætlega til hinum megin, þar sem kjöt er framleitt, og hef verið talsmaður þess að sú grein, þ.e. kjötiðnaðurinn, fái sömu undanþágur og mjólkuriðnaðurinn. Persónulega þekki ég líka alveg ágætlega samruna tveggja fyrirtækja norður við Eyjafjörð þar sem bændur og einkafyrirtæki runnu saman, þ.e. Kjarnafæði og Norðlenska. Bara þessi tvö fyrirtæki sem velta um 10 milljörðum á ári — ætli við séum ekki að sjá hagræðingu þar á hverju ári upp á 300, 400, 500 milljónir. Það er hægt að gera ansi mikið fyrir þá peninga. Þetta er ekki eingöngu fyrir framleiðendur gert, þetta er líka gert fyrir neytendur, frú forseti.

Færum okkur yfir í græna geirann og grænmetisrækt og jarðrækt almennt. Þar eigum við feiknarleg sóknartækifæri og nákvæmlega eins og kom fram í ræðu hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur hér áðan þá var farið í ákveðna breytingu á vinnulagi varðandi beingreiðslur sem sneru að tómötum, gúrkum og papriku. Síðan tengist þetta niðurgreiðslu á rafmagni og þess háttar. Vissulega var þar mikið stökk og mikil breyting varð á, margar tegundir, sérstaklega eins og í tómötum. Þar hefur verið gaman að fylgjast með. Það hefur einnig verið feiknarlegur vöxtur sem snýr að annarri grænmetisræktun. Allt þetta þurfum við að styðja.

Ég held að eftir þá tíma sem við höfum lifað undanfarin tvö ár sem tengjast Covid og öllu sem því fylgir, munum við sjá fram á gríðarlegar hækkanir á allri hrávöru alls staðar í heiminum. Sykur hækkaði t.d. um 26% árið 2020. Orka hefur hækkað alveg feiknarlega, olía. Kornvara hefur hækkað alveg feiknarlega. Ég get talið lengi áfram. Við þekkjum öll stöðuna sem er á landamærum Rússlands og Úkraínu. Um hvað ætli sú barátta snúist? Hún snýst fyrst og fremst um auðlindir og það að menn séu að verja sínar auðlindir. Í Úkraínu er sennilega eitt auðugasta landbúnaðarland heimsins. 30% af svokallaðri svartri mold heimsins er að finna í Úkraínu, sem er eitt frjósamasta og besta ræktunarland sem til er.

Þetta er það sem við sjáum að er að fara að gerast á öllum mörkuðum núna. Það er að öll hrávara að hækka. Þó að það sé ekki mikið gleðiefni að tala um að matarverð sé að hækka þá held ég að það sé óumflýjanlegt að hluta til, bara vegna þess að við erum að fjalla um takmarkaða auðlind. Þar af leiðandi felast tækifæri okkar Íslendinga í matvælaframleiðslu almennt í því að við eigum að framleiða meira, eins og við getum, en við þurfum líka að skapa atvinnugreininni ákveðin starfsskilyrði. Hvort sem við erum með undanþágu frá 71. gr. búvörulaga í mjólkuriðnaði og kjöti eða með tolla eða hvernig sem við gerum þetta — ég er mjög tilbúinn að ræða allar hugmyndir í þeim efnum við hv. þingmenn Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Sigmar Guðmundsson því að öll umræða er af hinu góða til að við komumst aðeins áfram. Við þurfum að gera það því að kjör sumra bænda eru algerlega óásættanleg. Þá vitna ég sérstaklega til kollega minna sem eru sauðfjárbændur. Sú atvinnugrein er við veruleg hættumörk; það er hækkun á áburðarverði og menn verða bara að klóra sér í hausnum yfir því hvort þeir ætli að halda áfram.

Verkefni okkar, löggjafans, með hagsmunaaðilum, er að velta því fyrir okkur hvernig við ætlum að takast á við framtíðina. Hvernig ætlum við að tryggja það að við framleiðum eins mikið magn af heilnæmum matvælum og við getum? Það er verkefnið okkar, hvort sem það er á landi eða á sjó.

Máttur samkeppninnar er af hinu góða, ég get alveg tekið undir það. Ég held að við Framsóknarmenn séum ekkert sérstaklega bólusettir varðandi samkeppni, við óttumst hana ekkert, en samkeppni þarf að vera á jafnréttisgrundvelli. Um það snýst þetta. Þess vegna erum við með þessa umgjörð. Hvort sem mönnum líkar hún betur eða verr þá reyndum við að skapa einhverja umgjörð til þess að sú vara sem við framleiðum hér heima standist samkeppni frá útlöndum.

Ég er búinn að heyra það svo oft að neytendur velji íslenskt og það er bara virkilega ánægjulegt að heyra það trekk í trekk. En samt sem áður var sennilega mesti innflutningur á kjöti sem við höfum séð mjög lengi árið 2021, þrátt fyrir allt, og hann hefur bara aukist. Hvað veldur? Jú, ef við horfum á tollana þá erum við bara ansi rúm í því hér. Tollverndin á t.d. nautakjöti, alifuglakjöti, svínakjöti er frekar takmörkuð, þannig að það er tiltölulega einfalt mál að flytja hér inn þessar vörur. Tollverndin er jú vissulega til staðar í mjólkuriðnaði líka. En það eru ekki allir flokkar innan mjólkurframleiðslunnar sem bera tolla, þannig að það er ekki eins og við séum með Kínamúrinn hér hringinn í kringum okkur, það er sko langt því frá. Tölurnar segja okkur þetta. Þetta á líka við það sem snýr að grænmetinu og fleiri afurðum. Ég man ekki hve marga flokka við erum með í grænmetinu en þeir eru ansi margir. Þar er reynt að sníða það þannig að lagðir eru á tollar þegar innlend framleiðsla er til og síðan eru þeir felldir niður þegar framleiðslan er ekki til. Og nákvæmlega eins og hv. þm. Sigmar Guðmundsson kom inn á hér áðan; auðvitað er þetta svifaseint og bregst illa við, en þetta átti bara við um tvær tegundir þar sem þetta var svona, af öllum hinum tegundunum. Þarna skutu menn bara yfir markið og áætluðu ekki rétt. Þannig að við þurfum alltaf að horfa á heildarmyndina þegar við erum að fara yfir þetta: Hvernig ætlum við að standa vörð um þetta? Við höfum ekki svarað því hér í dag, í þessari góðu umræðu sem við höfum átt.

Þó að við trúum á hitt og þetta, frjálsa samkeppni, þá skulum við samt alltaf vera með báða fætur á jörðinni. Ég get alveg tekið undir það, hv. þm. Sigmar Guðmundsson, ég myndi vilja sjá að það væri bara engin niðurgreiðsla í Evrópusambandinu til landbúnaðarafurða, það væri langeinfaldast fyrir alla. En staðan er bara sú, hvort sem er í Bandaríkjunum, Evrópusambandinu eða hvar sem er, í Bretlandi, að menn eru með einhvers konar stuðning við sína framleiðslu og verja hana á einhvern hátt. Það er mjög óeðlilegt að við, Íslendingar, ætlum að gera eitthvað annað þó að okkur fyndist að það mætti vera einhvern veginn allt öðruvísi. En staðan er bara þessi og heimurinn er eitt hagkerfi og samkeppnin á smásölumarkaði hér innan lands kemur frá útlöndum. Hún er ekki á milli framleiðenda hérna heima. Það er nú það sem ríður baggamuninn í því. Þetta þekkjum við bara mjög vel, t.d. þegar það gekk alveg feiknarlega vel í útflutningi á lambakjöti á sínum tíma. Við bjuggum ekki til skortstöðu, langt því frá, heldur fengum við feiknarlega gott verð erlendis fyrir vöruna. Þá hækkaði hún hérna heima líka. En það varð ekki skortur á vörunni. Síðan hrundi verð á markaðnum erlendis og þá hrundi það hér líka. Þetta sjáum við í alifuglum. Þetta sjáum við í svínum og þetta sjáum við í nautakjöti líka.

Hvað gerðist t.d. með kartöflur síðastliðið vor? Mestu þurrkar sem verið hafa í Evrópu, kartöfluuppskera í algjöru lágmarki. Kartöflubændur hér heima sem hafa vanalega keypt útsæðið t.d. frá Hollandi fengu ekki útsæði vegna þess að það var of lítið til af kartöflum á svæðinu. Þá verja menn sína stöðu líka. Það átti líka við um kornbirgðir í Evrópu, þá drógu þeir bara úr útflutningi til að eiga fyrir sig sjálfa. Þetta hefur okkur aldrei dottið í hug, að fara þessa leið, en þetta gerir Evrópusambandið og er það vel.

Þannig að, virðulegi forseti, við getum rætt þetta fram og til baka, en ég held að grundvallaratriðið hjá okkur í þessu eigi alltaf að vera: Hvernig getum við framleitt eins mikið af matvælum og við getum? Hvaða starfsskilyrði þurfum við að setja til að þetta sé raunhæft markmið og það sé raunhæft að framleiðendur hafi jú kaup fyrir það sem þeir eru að gera og neytendur fái vöruna á eins hagstæðan hátt og mögulegt er? Þetta verður okkar stóra verkefni núna næstu misserin vegna þess að ég held, og ég er ekki einn um það, að matarverð í heiminum komi til með að hækka. Það hefur bein áhrif á þann markað hérna og þess vegna er aldrei mikilvægara en nú að við sem þjóð stöndum vörð um okkar matvælaframleiðslu með neytandann nr. 1, 2 og 3 og hugsum um hann eins og við getum.