152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

búvörulög og búnaðarlög.

118. mál
[15:59]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðuna. Þetta eru góð skoðanaskipti. Það er áherslumunur á milli fólks, svo sannarlega. En svo ég dragi það aftur fram þá er ég að velta fyrir mér stóru myndinni til lengri tíma. Ætlum við að vera með í grunninn mjög miðstýrt kerfi sem býr til alls konar vandkvæði eða ætlum við að reyna að komast út úr því? Ég tel að þetta frumvarp sem við erum að ræða hér sé svo sannarlega skref í rétta átt. Mig langar að spyrja hv. þm. Þórarin Inga Pétursson sem hér talaði á undan mér, af því að hann var að nefna sauðfjárbændur og stöðuna þar og að þeir séu ekki öfundsverðir af sínu hlutskipti og um það hafa verið skrifaðar margar skýrslur og margoft komið fram í fréttum, og ég bara velti þessu upp: Að hve miklu leyti getur sú staða mögulega verið sprottin upp úr því að við erum með rosalega miðstýrt kerfi sem menn geta illa hreyft sig innan? Ég veit að hv. þingmaður þekkir þá umræðu mætavel. Getur ekki verið að það sé ákveðið samhengi þarna á milli? Síðan vildi ég líka að fá að nefna það, af því við erum að leggja þetta fram úr okkar flokki, Viðreisn, að við erum svolítið að hugsa það almennt þegar við erum að tala fyrir okkar stefnu að þetta styrkjakerfi verði umhverfismiðað fremur en framleiðslutengt. Við erum ekki að segja að það eigi ekki að vera neinn stuðningur á neinum póstum eða neitt slíkt. En það má vissulega hjálpa bændum til meira frelsis og ég er alveg sannfærður um það, svo ég komi aftur að sauðfjárbændum sem vísað var til, og sú spurning er mjög áleitin, hvort staða þeirra, fjárhagsstaða þeirra, kjör þeirra, geti ekki mögulega verið eins og þau eru vegna þess að kerfið er of þunglamalegt og við erum föst í einhverri vitleysu sem við eigum að reyna að brjótast út úr.