152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

búvörulög og búnaðarlög.

118. mál
[16:03]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þá að öðru sem ég myndi gjarnan vilja spyrja hv. þingmann um. Það er þessi umsögn Samkeppniseftirlitsins sem hefur komið fram við þetta mál á fyrri stigum og ég vísaði í ræðu minni áðan í þessi orð sem mér finnst a.m.k. áleitin og hendi þeim hér inn til umhugsunar og andsvars, þegar Samkeppniseftirlitið er að viðra það að þessi sjónarmið bænda, að þeir líti fremur á sig sem launþega en atvinnurekendur, hafi komið sterkt fram og þá er vísað í áratugs gamalt mál og ég rakti það nú allt saman hérna áðan. Svo er nefnt:

„Ein ástæða þessa rótgróna viðhorfs er að líkindum sú staðreynd að mikilvægar búvörur hafa í gegnum tíðina lotið opinberri verðlagningu. Önnur ástæða kann að vera sú að bændur eru á ýmsan hátt þiggjendur í því umhverfi sem þeir starfa. Þar er ekki bara átt við að þeir njóti opinbers stuðnings við framleiðslu sína heldur hafa þeir, hver og einn, mjög lítil áhrif á það hvernig afurðum þeirra er ráðstafað.“

Svo er Samkeppniseftirlitið mjög á því að það sem verið er að leggja hér til sé til mikilla bóta. Mér þætti vænt um ef hv. þm. Þórarinn Ingi Pétursson kæmi kannski með sínar hugleiðingar um þessa umsögn og hvað honum finnst um þetta rótgróna viðhorf, þetta sem ég var að lesa upp, sem við erum öll orðin svo vön.