Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[15:30]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins varðandi aðgerðaleysið á síðasta kjörtímabili, það er í rauninni ámælisvert að við höfum hér í fjögur ár verið að ræða mikilvægi þess að bæta umgjörðina um orkunýtingaráætlunina, bæta inn einhverju skýrara varðandi vindinn og skoða 10 MW viðmiðin. Það er heilmikið sem þarf að laga í þessu kerfi. En vegna þess að ríkisstjórnin komst hvorki lönd né strönd með neitt af þessu þá gerðist ekkert. Fyrir vikið stöndum við hérna sex árum eftir að Sigrún Magnúsdóttir samdi þessa tillögu, bara á nákvæmlega sama stað og fólk var 2016. Og talandi um þáverandi hæstv. umhverfisráðherra, Sigrúnu Magnúsdóttur, það er náttúrlega dálítið fyndið að við séum hérna að endurvinna tillögu Framsóknar sem Framsókn styður ekki, sem ráðherra Vinstri grænna lagði fram fyrir ári en þingflokkur Vinstri grænna gerði fyrirvara við, og sem Sjálfstæðisflokkurinn — ja, við fáum það kannski betur á hreint á eftir — er ekki fullkomlega dús við heldur þrátt fyrir að þeirra eigin ráðherra beri málið fram. Mögulega sé litið á stjórnarsáttmálann sem svona leiðbeiningar fyrir það hvað þingið eigi að gera, að stækka biðflokkinn sé einhvern veginn í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar en stjórnarflokkarnir ná ekki saman um það sín á milli þannig að við eigum bara að græja það hérna. Í síðasta stjórnarsáttmála var í fyrirsögninni talað um að hann snerist um eflingu Alþingis. Ég man ekki eftir því að þessi stjórnarsáttmáli snúist um störf Alþingis heldur um ríkisstjórnina eina. Þess vegna finnst mér mjög skrýtið að þingmenn líti svo á að ráðherrann (Forseti hringir.) geti lagt fram bara einhver drög að tillögu sem síðan eigi að móta í átt að stefnu ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) í þinglegri meðferð, stefnu stjórnarinnar sem enginn getur bent á nákvæmlega hvað snýst um (Forseti hringir.) þegar við skoðum þá tilteknu kosti sem um er að ræða í þessari áætlun.