Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[17:36]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég held að þetta sé einmitt það sem við höfum verið að nálgast í þessari umræðu hér í dag: Það dugar ekki að samþykkja þriðja rammann eða þessa þingsályktunartillögu, afgreiða hana með einhverjum hætti hér á Alþingi, heldur verður lagaumgjörðin öll að vera til staðar. Ég hef skilið það svo að eftir innleiðingu þriðja orkupakkans í íslensk lög árið 2019 standi enn mjög margt út af í lagaumgjörðinni sem varðar einmitt neytendaverndina og öryggismálin og annað slíkt. Það er það sem þarf líka að vera til staðar svo þetta gangi allt saman upp. Þetta er vissulega flókið fyrirkomulag en einhvern veginn verður fyrirkomulagið að vera og það þarf að reyna að lágmarka óvissuna í kerfinu.

Stóra breytingin í raforkuöflunarumhverfinu hér á landi á síðustu 15 árum, 10 árum alla vega, er að við erum hætt að vera með framboðsmarkað og erum með eftirspurnarmarkað. Við erum með eftirspurn eftir einhverri verðmætustu vöru sem hægt er að selja í dag, á Vesturlöndum og í heiminum öllum. Áður var það þannig að stjórnvöld þurftu að fara út um heim til að ná í kaupendurna. Það er allt breytt og við verðum að aðlaga okkar kerfi, bæði löggjafarrammann og hvernig við forgangsröðum í orkunotkuninni, í samræmi við það.