Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[17:40]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Kannski er einfaldasta leiðin til að skilja og fást við þetta verkefni að hugsa um þetta sem tvo markaði. Stóriðjumarkaðurinn nær vissulega yfir einhver 85%, minnir mig, af orkuframleiðslunni eins og hún er í dag, og er sannarlega samkeppnismarkaður og stýrist af heimsmarkaðsverði þó að gerðir séu samningar til langs tíma. Síðan er það restin sem skiptir samt öllu máli, það er almenningur í landinu, það eru heimilin í landinu og það eru öll hin fyrirtækin. Vöxtur sem stuðlar að fjölbreyttri atvinnustarfsemi, búsetu um allt land og orkuöryggi í landinu — það er sá hluti sem þarf að vera algjörlega í föstum skorðum af hálfu stjórnvalda hvað varðar lagaumgjörðina og stefnuna, hvernig við ætlum að tryggja það.

Mér sýnist á öllu, eftir umræðuna í dag, að ýmislegt sé ógert þeim megin í þessu máli og það er mjög mikilvægt að löggjafinn fari í það mál og ekki síður hæstv. ráðherra og framkvæmdarvaldið af því að við verðum að hafa það í lagi. Samkeppnin mun sjá um sig. Verðið mun bara hækka, af því að varan er einstök og hún er ein sú besta sem hægt er að kaupa. En við verðum að sjá til þess að út um landið búi fólk og fyrirtæki ekki við orkuskort sem er í raun af manna völdum, sem er kerfislægur.