Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[18:02]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Það er gríðarlega mikilvægt að ná orkuskiptunum, þó ekki nema bara efnahagslega séð. Við erum að flytja inn olíu fyrir 100 milljarða á ári. Það er engin smáræðisupphæð þegar við erum að tala um vöruskiptajöfnuð o.s.frv. Það að ná því að verða óháð innflutningi á orku er efnahagslega augljóst dæmi. Ég hlakka mikið til þess að sjá svona upplýsingar koma frá umsagnaraðilum, líka frá ráðuneytinu eða Orkustofnun og öðrum, inn í vinnuna við þessa þingsályktunartillögu og komandi frumvarp frá ráðherra sem sýna okkur spár um þörfina á orku til komandi ára, upplýsingar sem sýna okkur að það sé þörf á frekari virkjunum eða tækniþróun í núverandi virkjunum eða vindorku eða einhverju öðru í staðinn. Kannski er það bara uppfærsla á dreifikerfinu mínus eitt álver eða eitthvað því um líkt. Sviðsmyndirnar sem eru í boði til að ná árangri á sem skemmstum tíma á sem hagkvæmastan hátt og með sem mestum arði fyrir orkuöryggi allra landsmanna. Þetta er ekki lítið verkefni. Þetta er viðamikið verkefni þannig að tíminn sem eftir er af þessu þingi fyrir verkefni af þessari stærð hverfur mjög hratt, sérstaklega af því að það eru páskar þarna og sveitarstjórnarkosningarnar á milli. Það er heill mánuður sem fer af starfi þingsins bara út af því, sem er ekki gaman. (Gripið fram í.) Það er einfaldlega þannig að við þurfum að vera líkamlega á staðnum til þess að geta sinnt nefndarvinnunni og svoleiðis. Þetta er bara staðan eins og hún er, það er ekkert flóknari en það.