Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

stjórn fiskveiða.

349. mál
[14:51]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef ekki talað fyrir því að hér verði gerðir sérstakir samningar. Ég hef ekkert verið að tala um það. Ég hef ekki verið á móti þessu kvótakerfi sem slíku. Það er margt í þessu kvótakerfi sem er margsnúið, margir angar í því sem þarf að laga og má laga án þess að við séum að breyta grunninum í þessu kvótakerfi sem verndar fiskinn og við höfum séð fram á það. Varaformaður Viðreisnar, Daði Már Kristófersson, sagði í útvarpsviðtali nýlega að þegar fiskveiðiheimildunum var úthlutað á sínum tíma í kringum 1980, þegar ég var að starfa í þessari grein, hefði engin útgerð haft efni á því að borga fyrir þær heimildir á þeim tíma, ekki nokkur útgerð. Við munum alveg hvernig þetta var. Þetta var allt á rassgatinu. Hver einasta útgerð í landinu var meira og minna á rassgatinu, allt of margir bátar og það þurfti að hagræða. Þetta var leiðin. Margar þjóðir voru að gera þetta. Við fórum þessa leið og hún heppnaðist mjög vel hjá okkur vegna þess að útgerðin gengur vel og við eigum að fagna því. En það breytir því ekki að við megum alveg ræða hvernig við viljum gjaldtöku og annað slíkt á sjávarauðlindinni. Mér finnst sjálfsagt mál að ræða það.

Hér barst í tal að deilistofnar kæmu til landsins. Ég er ekki að tala um að það þurfi eitthvað að bíða eftir þeim, við eigum auðvitað að hafa tilbúin lög eða reglur um það hvernig því verður útbýtt þegar þar að kemur. Við vorum tekin í bólinu þegar makríllinn kom, vissum ekki hvernig ætti að bregðast við. Núna vitum við að ef þetta gerist aftur þá þurfum við auðvitað að vera tilbúin í það og ég fagna því bara ef það verður gert.