Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

fjármálastefna 2022--2026.

2. mál
[20:17]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni varðandi skýrleikann, svo ég byrji á því sem hann sagði um lögin. Það er alveg sjálfsagt að við tökum það atriði inn í samtal okkar þegar við drífum okkur í þá vinnu. Eins og ég kom inn á áðan, varðandi fjárfestingarnar, finnst mér það skipta miklu máli hvað arðbær fjárfesting þýðir. Arðbær fjárfesting er líka samfélagsleg; þ.e. einmitt þetta atriði, að tryggja jafna búsetu. Sjálf bý ég í sveitarfélagi með fern jarðgöng sem eru engan veginn arðsöm framkvæmd ef horft er til þess að hún eigi að skila ríkinu einhverjum peningum, en sannarlega hefur hún gjörbylt búsetu og byggð í samfélaginu. Ég hef líka haldið því fram, svo ég haldi mig við jarðgöngin, að við eigum bara að taka lán og gera eins og Færeyingar og vera með nokkur göng í gangi í einu. Það er eitthvað sem við þurfum að gera, burt séð frá því hvort mjög margir búi á stöðunum eða ekki. Við þekkjum það þaðan að það þarf ekki marga til að bora göng. Í alls konar innviðafjárfestingum þurfum við að huga að því að það sem er samfélagslega arðbært er líka arðbært.