Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

fjármálastefna 2022--2026.

2. mál
[20:49]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég lít þannig á að það eigi að greiða fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum. Hver útfærslan ætti að vera er ég ekki alveg klár á en ég þykist vita að sú útfærsla sem er til staðar í dag skili þjóðinni ekki þeim arði sem mér finnst þjóðin eiga rétt á. Ég held að við ættum þá bara að sameinast um það á þessu kjörtímabili að skoða möguleikana á því, bæði hverjar tekjur ríkissjóðs eigi að vera og síðan hverjar tekjur sveitarfélaganna eigi að vera. Það skiptir máli að allt þetta sé í lagi. Við heyrðum í kjördæmavikunni að það er talað um heilbrigðisþjónustuna, það er talað um löggæsluna, það er talað um tengivegina. Hvernig eiga sveitarfélög að sameinast ef það er ekki hægt að keyra rútur á tengivegum, skólabílinn á tengivegum? Það eru mýmörg verkefni sem bíða okkar, bæði í þingsal og síðan heima í héruðunum, (Forseti hringir.) og við eigum að sameinast um að leysa þau.