Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

fjármálastefna 2022--2026.

2. mál
[22:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Nú háttar þannig til að ég hef ekki sömu töflu og hv. þingmaður er að vitna til. Hún er ekki í nefndaráliti meiri hlutans þannig að það verður að virða mér það til forláts að ég er ekki með sömu gögn og sama niðurbrot og á sömu vegferð og hv. þingmaður í sinni spurningu. Svar mitt er aftur á móti, og það endurspeglast í töflunni sem nefndin birtir í meirihlutaáliti sínu, þar sem reynt er að setja tölur á bak við hlutföllin eða prósenturnar, að á tímabilinu mun ljúka ýmsum aðgerðum vegna Covid-faraldurs og efnahagslífið mun stækka. Sú niðurstaða sést endanlega í betri afkomu ríkissjóðs þegar líður á spátíma stefnunnar. Ég held, hv. þingmaður og virðulegur forseti, að við tæmum ekki þessa umræðu hér, hún á miklu frekar heima í umfjöllun um fjármálaáætlunina sjálfa. Ég nálgast þetta því einfaldlega þannig að þarna er verið að blanda saman við þetta — virðulegur forseti, ég veit ekki hvaða hugtak ég á að nota yfir það — bættri afkomu ríkissjóðs, með stækkandi þjóðarbúskap, öflugra efnahagslífi og því að það dregur úr þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til á líðandi ári vegna kórónuveirufaraldursins. Þess vegna birtist þar betri afkoma ríkissjóðs og að einhverju leyti blandast það inn í þetta niðurbrot sem hv. þingmaður vísar til en ég hef ekki séð þá töflu og veit ekki hvernig hún er búin til.