152. löggjafarþing — 40. fundur,  23. feb. 2022.

blóðmerahald.

[16:06]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Nú liggur það fyrir að Ísland er aðeins eitt af örfáum Evrópuríkjum, ef það eru ekki bara tvö ríki, sem heimila blóðmerahald hrossa, enda er þetta iðnaður sem er mjög umdeildur. Afhjúpun á honum hefur leitt til þess að hann hefur verið aflagður víða vegna slæmrar meðferðar á merum og afkvæmum þeirra. Í dag eru 5.000 íslensk hross nýtt í þessum tilgangi. Framleiðslan hefur þrefaldast á 13 árum. Það á auðvitað enginn að velkjast í vafa um það hvert markmið laga um velferð dýra er. Það er að dýrum sé hlíft við vanlíðan, við þjáningu, hungri, þorsta, sársauka, meiðslum og sjúkdómum. Þær frásagnir og myndbönd sem litið hafa dagsins ljós af blóðmerahaldi eru alls ekki í samræmi við þessi markmið dýravelferðarlaga. Það er auðvitað alveg rétt, sem sagt hefur verið í umræðu um þessi mál, að eftirlit með matvælaframleiðslu og velferð dýra hefur batnað á undanförnum árum, eins og sést þar sem þessi starfsemi hefur verið stöðvuð. Tímarnir breytast og ég held að fólk sé að verða æ meðvitaðra um þær siðferðislegu spurningar sem vakna þegar kemur að kjötframleiðslu. Það hafa verið færð sterk rök fyrir því að blóðtaka úr fylfullum hryssum sé beinlínis dýraníð, sérstaklega þegar verið er að taka gríðarlega oft og gríðarlega mikið blóð úr merum. Ég fagna frumkvæðinu sem þingmenn Flokks fólksins hafa sýnt í þessu máli. Ég tel að við verðum að taka á þessu, taka á því þegar um er að ræða óviðunandi meðferð á hryssum og þegar það er þá forsenda þess að framleiða kjöt með því að auka afkastagetu svína- og kúabúa langt umfram það sem náttúrulegt getur talist. Við verðum að tala um þetta og taka þessi mál miklu fastari tökum.