152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

um fundarstjórn.

[13:31]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. „Vonandi næ ég að kynna í næstu viku í ríkisstjórn nýtt útlendingafrumvarp sem mun leysa þessi brýnu mál“, sagði hæstv. dómsmálaráðherra í útvarpinu í morgun. Og hver eru þessi brýnu mál? Jú, honum finnst ekki ganga nógu vel að sparka flóttafólki úr landi. Það vantar lagaheimild til að þvinga þau til líkamsrannsóknar, hann vantar lagaheimild til að geta vísað þeim allslausu á götuna í Grikklandi. Þetta ætlar hann að nota Úkraínustríðið til að réttlæta. Það er ógeðslegt að nota stríð í Úkraínu sem átyllu fyrir því að svipta fólk á flótta mannréttindum. Ógeðslegt að ríkisstjórnin ætli að gera það. Nú reynir á samstarfsfólk Jóns Gunnarssonar í ríkisstjórn um það hvort það hleypi þessum viðbjóði í gegnum ríkisstjórn og þingflokka, hvort það ætli að taka þátt í stríði Jóns Gunnarssonar gegn réttindum fólks á flótta eða taka sér stöðu með mannúðinni.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir þingmenn á að gæta orða sinna og gæta að orðavali.)