152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

leigubifreiðaakstur.

369. mál
[14:56]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp hæstv. iðnviðaráðherra um leigubílaakstur. Líkt og síðast þegar ég steig hér upp af sama tilefni ætla ég að lýsa yfir ánægju með að þetta mál skuli vera komið á dagskrá og óska hæstv. ráðherra til hamingju með að hafa komið þessu í gegnum ríkisstjórn, í gegnum þingflokka ríkisstjórnarinnar. Umbætur á löggjöf um leigubifreiðar eru löngu tímabærar og við sjáum það ekki síst á því að málið á rætur sínar að rekja til athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, sem hóf frumkvæðisathugun á leigubílamarkaði hér á landi fyrir nokkrum árum, athugun á lögbundnum takmörkunum og hindrunum sem koma niður á samkeppni og koma niður á neytendum. Það er ágætt að nota tækifærið og minna okkur reglulega á að neytendur njóta góðs af veru okkar á hinu Evrópska efnahagssvæði.

Sjálf lagði ég fram þingsályktunartillögu í þessa veru árið 2018 og aftur á þessu þingi um frelsi á leigubílamarkaði. Þó svo að það mál hafi verið skotið hraustlega niður af ýmsum þingmönnum hér, líka innan ríkisstjórnarinnar, er ég ánægð með að margt sem þar var að finna er einnig hér í frumvarpi hæstv. ráðherra. Það er rétt, sem kom fram í máli hans áðan, að þó svo að þessi fjögur ár séu býsna langur tími, og við höfum fengið skammir frá Eftirlitsstofnun EFTA, þá spilar inn í sá veruleiki sem við höfum búið við síðustu tvö ár í heimsfaraldri sem m.a. hefur komið niður á atvinnu leigubílstjóra. Að því leyti til er þetta eðlilegt mál en jafnframt gott að sjá það komið á dagskrá.

Við erum að tala um almenningssamgöngur og það er mikilvægt að við ræðum þessa þjónustu sem slíka. Eins og með margt annað í ágætu kerfi almenningssamgangna er rúm fyrir umbætur. Til að leigubílar geti sinnt hlutverki sínu í því mikilvæga gangverki þarf þjónustan einfaldlega að vera aðgengileg og vera á viðráðanlegu verði. Að mínu mati er heilbrigð samkeppni lykillinn að því að ná þeim markmiðum, bæði með áherslu á samkeppnina sjálfa og svo heilbrigði samkeppninnar. Við þurfum að búa til slíkar aðstæður. Lögbundin fákeppni er einfaldlega til þess fallin að hækka verð til neytenda. Ef samkeppnin verður virk, ef þetta gengur upp hjá okkur, er auðvelt að sjá fyrir sér að í samhengi við aðrar úrbætur, sem verið er að gera í almenningssamgöngum, eigi mun fleiri þess kost að leggja einkabílnum kjósi þeir svo, nýta leigubíla, strætisvagna og aðrar almenningssamgöngur til að sinna erindagjörðum sínum með minni kostnaði og minna álagi á kerfið okkar, svo að ekki sé talað um umhverfismálin. Það er rétt, sem hæstv. ráðherra kom inn á áðan, spurður nákvæmlega um þau mál, að þar koma náttúrlega önnur hvatakerfi til sögunnar líka.

Mig langar að nefna tvær mikilvægar réttarbætur sem finnast í frumvarpinu, og ég fagna sérstaklega. Hæstv. ráðherra fór vissulega yfir þær líka en margar af þeim en þær eru fleiri vegna þess að það er töluvert um breytingar í þessu eins og gjarnan er þegar verið er að taka til endurskoðunar mál sem hafa verið óbreytt lengi. Mig langar annars vegar að nefna afnám hámarkstakmörkunar á heildarfjölda útgefinna atvinnuleyfa fyrir leigubíla. Það eru engin rök fyrir ríkið að stjórna framboði á þessari þjónustu umfram aðra. Það er engin ástæða til að hafa áhyggjur af því að markaðurinn hér nái ekki jafnvægi, þ.e. milli framboðs og eftirspurnar, líkt og er á mörgum öðrum mun flóknari, viðkvæmari og fjármagnsfrekari mörkuðum. Auðvitað þurfum við að hafa reglur eins og við höfum um aðra starfsemi sem við viljum einfaldlega að sé faglega unnin en eins og annars staðar getum við tryggt þessa fagmennsku án þess að setja takmarkanir á frjálsa samkeppni líkt og gilda á leigubílamarkaði í dag.

Mig langar hins vegar að nefna réttarbótina sem felst í því að reglur um gjaldmæla séu loksins endurhugsaðar. Verði þetta frumvarp að lögum svona verður neytendum gert fært að semja um verð fyrir fram. Þeir geta spurt: Hvað kostar ferðin frá Kringlu upp í Grafarvog? — og fengið verðtilboð, jafnvel séð í smáforriti leiðina sem verður ekin og endanlegan heildarkostnað í stað þess sem nú er, að setjast upp í bíl, sjá mælinn tikka og vita ekki hver lokatalan verður. Svo getur bara vel verið að neytandi hafi val um hvort hann kjósi bíl með núverandi fyrirkomulagi eða þessari nýsköpun, um það snýst jú málið; viðskiptafrelsi, samningsfrelsi og neytendavernd og neytendafrelsi. Að þvinga leigubíla til að nota gjaldmiðla eins og verið hefur hamlar einfaldlega tæknilegri framþróun á borð við greiðslu í gegnum snjallsímaforritin. Það er auðvitað lykilþáttur í því að opna íslenskan markað fyrir þjónustufyrirtækjum sem margir Íslendingar þekkja af góðri reynslu í erlendum borgum og við vitum að þegar eru Íslendingar hér á landi tilbúnir í startholunum að veita neytendum hér á landi slíka þjónustu. Slík þjónusta byggir á grundvelli samningsfrelsis og kostum þess að nýta nýsköpun. Það er eiginlega ómögulegt að ræða samgöngur í þéttbýli nútímans og framtíðarinnar án þess að hafa þessa kosti þessara þátta í huga.

Frú forseti. Þó að ég hafi hér verið að vísa til hagsmuna neytenda þá tel ég að hagsmunir leigubílstjóra eða bílstjóra megi sannarlega ekki í léttu rúmi liggja. Þetta snýst náttúrlega líka um atvinnufrelsi þeirra sem hafa hug á að stunda þessa vinnu og það krefst þess að það sé ekki takmarkaður réttur þeirra til að skapa sér hærri tekjur með auknu sjálfstæði í starfi, frelsi til að velja hvort bílstjóri starfi fyrir stöð eða hvernig hann verðleggur þjónustu sína. Eins er ekki síður mikilvægt að stórlækka opinber gjöld sem lögð eru á þessa atvinnugrein því að þau eiga, eins og svo margt annað, sinn þátt í því að halda verðlaginu uppi.

Til þess að leigubílar geti sinnt mikilvægu hlutverki sínu í almenningssamgöngukerfinu þarf þjónustan að vera aðgengileg og á viðráðanlegu verði. Heilbrigð samkeppni er lykillinn að því að ná þessum markmiðum og að þeim markmiðum uppfylltum geta fleiri kosið að leggja einkabílnum varanlega, búi þeir við þær aðstæður, eða draga umtalsvert úr notkun þeirra og búa til aðstæður fyrir þá sem kjósa að fara allra sinna ferða á einkabíl.

Áhugi minn á frelsi, á því að sjá þetta frumvarp verða að lögum, snýr fyrst og fremst að akkúrat þessu, að sjá leigubíla í mismunandi mynd verða hluta af lausninni sem gott almenningssamgöngukerfi getur veitt okkur. Við þurfum fjölbreyttara framboð og fjölbreyttara verð til að svo verði. Við höfum þegar séð gríðarlegar tækninýjungar í þessari atvinnugrein og ég er sannfærð um að við erum ekki búin að sjá fyrir endann á þeim. Síðast þegar við ræddum þetta mál sagði ég að fyrst það frumvarp væri komið í gegnum þingflokka stjórnarinnar væri útkoman líklegast tryggð. En síðan hefur hæstv. ráðherra þurft að leggja frumvarpið fram tvisvar á nýjan leik og auðvitað spila þar inn í, líkt og hæstv. ráðherra kom inn á áðan og ég nefndi, aðstæður, afleiðingar heimsfaraldurs síðustu tvö ár. Því er ekki að neita að það hefur verið mjög harðsnúin andstaða tiltekinna stjórnarþingmanna við þetta mál og verður spennandi að sjá málið unnið áfram í hv. umhverfis- og samgöngunefnd.

Ég vona að nú sé raunverulegur meiri hluti á þingi, raunverulegur vilji meðal þingmanna, fyrir því að afgreiða þetta mál og koma því í gegn. Ég hlustaði af gaumgæfni á ræðu hæstv. ráðherra um málið og andsvörin og ég tel næsta víst að komið hafi verið til móts við margar af þeim athugasemdum sem fram komu. Þess ber að gæta að þær komu mjög víða að. Það var líka mjög mikill þungi meðal þeirra sem vildu jafnvel sjá gengið lengra í frelsisátt, ekki eingöngu meðal þeirra sem vildu sjá þessu máli sópað út af borðinu. Við höfum því vonandi borið gæfu til, með þessu máli, að landa því þannig að við náum markmiðum um að verja hag neytenda, koma með sterka nýjung, sterkan vinkil inn í þróun og betrumbætur á almenningssamgöngukerfinu og vernda atvinnufrelsi í þessari grein. Ég hlakka til að sjá þetta mál unnið í hv. umhverfis- og samgöngunefnd og vona að ég fái að greiða atkvæði um það áður en langt um líður.