152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

leigubifreiðaakstur.

369. mál
[15:56]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna um þetta mál. Sérstaklega þegar hv. þingmaður ræddi hér áðan um öfgafrjálshyggju og taldi þetta frumvarp vera öfgafrjálshyggju, þá sat ég á mér því að mér finnst það frekar vera öfgaíhaldssemi ef eitthvað er. En ég get ekki látið hjá líða að spyrja, af því að ég heyrði hv. þm. Eyjólf Ármannsson nefna það að banna erlend öpp, ef ég skildi hv. þingmann rétt í þessari umræðu áðan. Ég velti fyrir mér: Er það stefna Flokks fólksins? Og hvar eigum við að byrja og hvar eigum við að enda í þeim efnum? Er hv. þingmaður þá bara að tala um þegar það á við um leigubílaakstur eða almennt í deilihagkerfinu? Hvað með Airbnb, Spotify, hjólaleigur eða eitthvað annað?

Ég beini þessari spurningu til hv. þingmanns: Hvað á hann við með því að banna erlendu öpp í þessu samhengi?