152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

leigubifreiðaakstur.

369. mál
[16:03]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni fyrir ræðuna. Ég tala hér sem stórnotandi leigubílaþjónustu og annarra almenningssamgangna þar sem ég á ekki einkabíl, hef aldrei átt og kæri mig ekki um að eyða milljónum í slíkt tæki og tel það vera ákveðin borgaraleg réttindi að þurfa þess ekki. Á undanförnum misserum, undanförnum árum hef ég verið að lenda í miklum vandræðum varðandi leigubílaþjónustu í Reykjavík sem eru þess eðlis að ég fæ ekki leigubíl eða fæ hann kannski eftir klukkutíma á álagstímum, jafnvel eftir 40 mínútur, ef ég er heppin. Þetta hefur verið sérstaklega slæmt núna í færðinni undanfarið og ég skil það ef það er vegna þess að það er mikið álag, sem er óvanalegt. En þetta var líka svona fyrir ári síðan. Þetta var líka svo fyrir einu og hálfu ári síðan. Stundum kemur hann eftir fimm mínútur, en það kemur fyrir að ég fæ hreinlega ekki leigubíl.

Þetta er ekki vandamál sem er þess eðlis að það er óheppilegt, leiðinlegt vegna þess að ég kemst ekki heim úr partíi, sem er kannski það sem flestir Íslendingar nota leigubíla í. Nei, þetta þýðir það að ég kemst ekki á fund. Ég kemst ekki með börnin mín þangað sem þau þurfa að fara, ég kemst ekki leiðar minnar. Þetta er að mínu mati algerlega óásættanleg staða.

Nú hefur verið nefnt hér í ræðum fyrr í dag að það sé hægt að auka fjölda leigubíla, auka fjölda leyfa til að leysa þetta vandamál og hv. þingmaður nefndi að það væri nú ekki mikið mál að gera svona app. Ég held reyndar að það sé mikið mál en allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Ef þetta er allt saman hægt, hvers vegna er það þá ekki gert? Hvers vegna er staðan þessi? Hvers vegna er ekki búið að bregðast við þessum vanda með öðrum hætti ef það er svona auðvelt?