152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

kosningar að hausti.

[16:28]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Þegar stórt er spurt verður fátt um svör og erfitt um svör. Í lögum segir um kjördag að almennar reglulegar alþingiskosningar skuli fara fram eigi síðar en við lok kjörtímabils. Upphaf og lok kjörtímabils miðast við sama vikudag í mánuði, talið frá mánaðamótum, þó að einstöku kosningar hafi ekki farið fram á þeim degi. Ráðuneytið skal auglýsa hvenær almennar reglulegar alþingiskosningar skulu fara fram. Kjörtímabilið er fjögur ár.

Hvenær á að kjósa og hvenær ekki? Ég held að það væri eiginlega skelfilegast ef við værum að kjósa til Alþingis og sveitarstjórna á sama tíma. Það yrði svolítið svolítið harðsótt. Þess vegna segi ég að við eigum að hafa þetta fast, en er það á vori eða hausti? Hvernig eigum við að fara að ákveða það?

Einfalt mál, látum lýðræðið ráða, látum almenning ráða, spyrjum almenning. Af hverju ekki? Hvort vill almenningur í landinu kjósa á vori eða hausti. Göngum frá því þannig að það sé alveg á hreinu að það sé kosið til fjögurra ára.

Ég held að hringlandahátturinn í því sem hefur verið undanfarið, að hætta sé á að ríkisstjórn geti splundrast á einu ári og valdið því að kosningar verða á mismunandi tímum sé eiginlega versta mynd af lýðræði sem við eigum samt að bera virðingu fyrir. Þannig að ég segi: Förum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Látum almenning ráða því hvort hann vill kjósa að vori eða hausti eða hvort þeir vilja bara kjósa um mitt sumar. Þeir ráða.