152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

almannatryggingar.

55. mál
[17:20]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Kostnaður vegna greiðslu; smáaurar fyrir ríkið, svakalega stór peningur fyrir þá sem á þurfa að halda. En tökum á því hvað við erum að tala um: Fólk sem vill búa í útlöndum, tekur ákvörðun um það einhverra hluta vegna, kannski vegna þess að börnin eru þar eða það ákveður það vegna einhvers annars að það vilji búa erlendis. Látum það liggja milli hluta. Síðan eru það aðrir sem eru að flýja, hreinlega bara að flýja til útlanda vegna þess að þeir telja sig geta haft það betra þar. En hvað gerir almannatryggingakerfið þá? Ríkisstjórn eftir ríkisstjórn hefur komið þessu bútasaumaða skrímsli á laggirnar. Hvað skeður þegar viðkomandi tekur þessa ákvörðun? Jú, hann fær strípaðar bætur. Það er tekin af honum heimilisuppbótin, það er tekinn af honum bílastyrkurinn, það er tekinn af honum lyfjastyrkur, ef viðkomandi hefur fengið hann, það eru teknar af honum húsaleigubætur, sérstakar húsaleigubætur. Þá á að gera allt sem hægt er til þess að viðkomandi geti ekki á neinn hátt og dirfist helst ekki að reyna að eiga betra líf annars staðar. Og þessi kostnaður kemur líka ofan á.

Ég spyr mig og hef spurt mig alla tíð síðan ég kynntist þessu stórfurðulega kerfi almannatrygginga: Hvernig í ósköpunum fórum við að að finna það upp? Í öðru lagi: Hvernig í ósköpunum gátum við búið það til? Og þá í þriðja lagi: Hvernig í ósköpunum getum við viðhaldið þessu kerfi án þess að roðna eða blána? Hvað er það í sál ríkisstjórnar eftir ríkisstjórn? Einhverra hluta vegna höfum við látið þetta kerfi viðgangast áratugum saman. Hvers vegna er mér gjörsamlega hulið. Á einhvern undarlegan hátt þá er það — ef við horfum á það hverjir eru í þessu kerfi, hverjir eru það sem eru þarna inni? Það eru þeir sem eru verst settir, t.d. í örorkukerfinu, það er verst setta fólkið. Ég spyr mig: Ef þú ert veikur og hefur komist inn í þetta kerfi vegna þess að þú ert metinn meira en 75% öryrki, þarf að refsa þér eitthvað meira? Er það ekki næg refsing fyrir lífstíð að vera í þeirri stöðu? Nei, segir ríkisstjórnin og hin ríkisstjórnin og önnur ríkisstjórn og núverandi ríkisstjórn. Nei, nei, nei, við þurfum að refsa þeim meira. Þú dirfðist að veikjast, þú dirfðist að slasast og ef þú ætlar að dirfast að fara til útlanda þá refsum við þér enn þá meira. Refsikerfið. Það er búið að búa til þetta ömurlega refsikerfi.

Virðulegur forseti. Ég get ekki annað sagt við fólk, ef einhver er að hlusta, en að eina leiðin til að breyta þessu, eins og ég sagði áðan, er hreinlega að breyta um ríkisstjórnin. Annars verður þetta allt óbreytt.