152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

almannatryggingar.

55. mál
[17:24]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég er stoltur flutningsmaður þessa frumvarps til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007. Hér er, eins og fram hefur komið hjá fyrsta flutningsmanni, hv. þm. Ingu Sæland, um lítið mál að ræða. Þetta er lagabreyting sem er upp á eina setningu: Tryggingastofnun skal greiða allan kostnað sem hlýst af framkvæmd greiðslna. Það er miklu algengara núna að lífeyrisþegar flytjist til útlanda og þá þarf að greiða þeim lífeyrisgreiðslur inn á erlenda reikninga. Greiðslan inn á erlendan reikning getur kostað pening og það að lífeyrisþegi sé látinn greiða þetta vil ég meina að sé gott dæmi um íslenska átthagafjötra. Það er með algjörum ólíkindum að lífeyrisþegar eigi að greiða fyrir þessar færslur. Þarna eru lífeyrisþegar að greiða fyrir störf Tryggingastofnunar, það má segja það.

Þegar maður skoðar þetta nánar ofan í kjölinn sér maður að þetta er breyting á lögum um almannatryggingar, 53. gr. Greinin heitir Upphaf og lok bótaréttar og greiðslufyrirkomulag. Með því að Tryggingastofnun láti bótaþegana eða lífeyrisþegana greiða fyrir færslu á erlenda bankareikninga er verið að brjóta jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Það er algerlega klárt í mínum huga og ég get sagt ykkur af hverju, hv. þingmenn. Í stjórnarskránni segir, 65. gr., að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Það hvort lífeyrisþegi sé búsettur á Íslandi eða búsettur erlendis á ekki að skipta máli við greiðslu lífeyrisréttinda. Það er mismunun að sé lífeyrisþegi búsettur erlendis þurfi hann að greiða fyrir greiðsluna inn á hinn erlenda bankareikning en sé lífeyrisþegi búsettur á Íslandi þurfi ekki að greiða neitt. Þetta er mismunun á grundvelli stöðu þeirra. Ef einhver lífeyrisþegi færi í mál fyrir dómstólum, og ég veit að það er mjög kostnaðarsamt að láta reyna á slíkt, tel ég að hann ætti klárlega lögmætra hagsmuna að gæta.

Þetta frumvarp hreinlega gengur út á það að leiðrétta misrétti sem lífeyrisþegi sem er búsettur erlendis, hefur flust til útlanda og fær greiðslur erlendis, verður fyrir. Ég efast um að þetta sé með sama hætti í öðrum ríkjum. Það væri a.m.k. sterkt mál að vísa til stjórnarskrárinnar og segja að verið væri að mismuna lífeyrisþega sem er búsettur erlendis með því að hann þurfi að greiða kostnaðinn við það að fá pening inn á erlendan bankareikning. Það eru engin málefnaleg rök fyrir því að lífeyrisþeginn eigi að borga þann kostnað.

Eins og ég sagði heitir 53. gr. laga um almannatryggingar Upphaf og lok bótaréttar og greiðslufyrirkomulag. Sú mismunun að greiðslufyrirkomulagið fyrir þann sem er búsettur erlendis sé öðruvísi en fyrir þann sem er búsettur á Íslandi er brot á jafnræði. Það er mín skoðun og ég tel að þetta litla mál sé gott dæmi um það hvers konar kerfi við búum við. Það er nákvæmlega sama og með málið hér á undan, það sýnir að það er ekkert gert fyrir bótaþega og lífeyrisþega, nákvæmlega ekki neitt, ef það er ekki algerlega skýrt stafað ofan í Tryggingastofnun hvernig fyrirkomulagið eigi að vera. Raunverulega ætti svona frumvarp að vera óþarft. Það er sjálfsagður hlutur að ef lífeyrisþegi vill fá inn á erlendan bankareikning þá verði það greitt á erlendan bankareikning. Það er ekkert í lögunum sem segir að lífeyrisþeganum beri að greiða fyrir færslu fjármunanna eða greiðslu inn á reikninginn. Það er ekkert sem segir það og þá þýðir það að Tryggingastofnun á að bera kostnaðinn.

Ég trúi ekki öðru en að þetta mál fái jákvæða meðferð í þingnefnd. Ég veit að þetta er í fjórða sinn sem málið er flutt þannig að það er ekki á vísan að róa en ég er nýr á þingi og er að eðlisfari mjög bjartsýnn maður og hef ekki enn öðlast þá reynslu að flytja lítið mál fjórum sinnum. Ég bara get ekki séð, í ljósi jafnræðis fyrir lögunum og varðandi stöðu aðila, að það sé forsvaranlegt að lífeyrisþegi þurfi að greiða slíkan kostnað. Þetta er svo sjálfsagt mál að það ætti að renna í gegnum þingnefnd. En ég veit ekki hvort það er á vísan að róa miðað við að þetta er í fjórða sinn sem málið er flutt.