152. löggjafarþing — 46. fundur,  3. mars 2022.

samspil verðbólgu og vaxta.

[11:36]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það eru teikn á lofti um að heimilin þurfi að fara að hafa áhyggjur. Vextir fara hækkandi, verðbólga fer hækkandi og stríðið í Úkraínu bætir sannarlega ekki horfurnar. Við erum að fara út úr faraldrinum, en það er hlutverk stjórnvalda að gæta þess að endurræsing hagkerfisins bitni ekki á viðkvæmustu hópum samfélagsins. Og því miður er vísbending um það að ákveðnir hópar fari verr út úr þessum faraldri en aðrir. Sú verðbólgu- og vaxtaþróun sem við höfum horft upp á kemur nefnilega verst við þá hópa sem standa höllustum fæti. Það er auðvitað ljóst að alvarlegt efnahagsástand, ekki síst erfiður húsnæðismarkaður auk versnandi heilsu fólks eftir faraldurinn, mun hafa víðtæk áhrif.

Hér sagði hæstv. fjármálaráðherra áðan að við hefðum lært að lifa með veirunni, en við munum aldrei læra, ekki til langtíma a.m.k., að lifa með auraleysi. Ríkisstjórnin ber á sinn hátt ábyrgð á þessari stöðu. Þegar vaxtalækkunarferlið hófst fyrir tveimur árum talaði hæstv. fjármálaráðherra nefnilega beinlínis um nýjan veruleika og gaf þannig ungu fólki mjög óraunhæfar væntingar. Margir skuldsettu sig miðað við orð hæstv. fjármálaráðherra og eru núna hugsanlega að lenda í erfiðri stöðu. Nú verður ríkisstjórnin að bregðast við. Hún hefur tækin til þess. Hún getur t.d. stigið fastar inn á framboðshlið húsnæðismarkaðarins, eins og Samfylkingin hefur talað um, og hún getur stutt tillögur Samfylkingarinnar og annarra stjórnarandstöðuflokka um mótvægisaðgerðir við heimilin. Ég trúi ekki öðru en að þessar tillögur hafi stuðning hjá almennum stjórnarþingmönnum, a.m.k. hjá þeim og flokkum þeirra sem kenna sig við jöfnuð.