152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Flóttafólk kemur til Íslands og fær hér vernd með tvennum hætti. Annars vegar kemur það hingað upp á eigin spýtur, oft eftir langt og hættulegt ferðalag, nær hér landi og sækir um vernd. Hins vegar er fólk sem er boðið hingað formlega af hálfu ríkisstjórnarinnar í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Þessi hópur er stundum kallaður því óheppilega nafni kvótaflóttamenn.

Aðeins önnur þessara tveggja leiða er það sem stundum er kallað, þótt ég vilji kannski ekki taka undir orðalagið, löglegt. Almennt er engin lögleg leið fyrir flóttafólk að komast til Evrópu. Kerfið okkar er nefnilega þannig uppbyggt að ef flóttafólk kemur hingað til lands skal veita því vernd en það má ekki koma hingað. Hins vegar eru fleiri leiðir sem geta hindrað fólk í því að fara og sækja vernd en bara múrarnir sem við höfum byggt í kringum okkar öruggu lönd og það kerfi sem við höfum hannað. Fólk með ýmiss konar fötlun sem sætir hindrunum í daglegu lífi þegar ekkert stríð er í gangi sætir enn frekari hindrunum þegar til þess kemur að þurfa að rjúka burtu í skyndi. Fatlað fólk á erfiðara með að flýja. Það gæti þurft að reiða sig á hjálpartæki og aðstoð og aðstæður á flótta eru mjög erfiðar eins og við vitum. Ferðalagið er langt, það getur verið vont veður og það getur verið flókið að komast á salerni og í skjól og annað slíkt.

Vegna yfirlýsinga evrópskra nágrannaríkja Úkraínu og viðbragða ESB á margt Úkraínufólk auðveldara með að komast til Evrópu og til öruggra landa en annað. Því vil ég hvetja ríkisstjórnina sérstaklega til að virkja enn fremur líka flóttamannanefnd og þær leiðir sem við höfum (Forseti hringir.) til þess að bjóða flóttafólki formlega hingað og fara og sækja það. (Forseti hringir.) Ég hvet ríkisstjórnina til að horfa sérstaklega til þessa hóps í þeirri vinnu, fólks sem á enn erfiðara en venjulegt fólk með að leggja land undir fót og leggja á sig (Forseti hringir.) hættulegt ferðalag.