152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf):

Virðulegi forseti, hv. þingmenn, góða þjóð sem horfir á okkur í sjónvarpinu heima. Ég heiti Tómas, kallaður Tommi, og ég er þingmaður fyrir Flokk fólksins. Ekki alls fyrir löngu hitti ég konu sem var nýkomin úr skíðaferð til Ítalíu. Hún var að lýsa fyrir mér ferðinni, hvað hún hefði verið dásamleg í alla staði en það sem hún hefði þurft að hafa með sér af vottorðum. Það var m.a. bólusetningarvottorð, heilbrigðisvottorð og svo tryggingavottorð. Ég spurði: Tryggingavottorð? Já, ef skíðamaður skíðar á annan mann í brekkunum þá er hann skaðabótaskyldur. Þá fór ég að hugsa: Við erum með dásamlegar flugbjörgunarsveitir út um allt land, fólk sem er í sjálfboðavinnu, og við erum með landhelgisgæslu sem er með þyrlur. Fari einhver maður upp á fjöll og lendi í ógöngum eru kannski 50, 60 eða 70 einstaklingar komnir með dýran útbúnað og það kostar tugi milljóna að hjálpa fólki sem fer oft og tíðum í hálfgerðum óvitaskap upp á fjöll. Ég legg til að hugsað verði alvarlega um það að fólk sem kemur hingað, ferðamenn sem ætla að fara upp á fjöll og njóta náttúrunnar, sem er bara ágætt, þurfi að bera ábyrgð á því sem það er að gera. Þetta er kostnaðarsamt. Ég legg til í leiðinni að allar björgunarsveitir fái einkasöluleyfi fyrir flugeldum um áramót. Það er út í hött að leyfa venjulegu fólki að flytja inn flugelda og taka aðaltekjulindirnar frá íþróttafélögum og björgunarsveitum.

Að lokum er hérna þessi dásamlega mynd af Jóni Sigurðssyni forseta, sem er ágæt. Ég legg til að þarna á móti komi hugguleg klukka sem við getum horft á því að maður vill alltaf vita hvað klukkan er.

(Forseti (BÁ): Forseti er líka upptekinn af því hvað klukkan er og hv. þingmaður fór aðeins fram yfir ræðutímann. Forseti minnir þingmenn á að virða ræðutímann, sem er tvær mínútur í störfum þingsins.)