152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[17:20]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það kann að vera að hv. þm. Andrés Ingi Jónsson hafi rétt fyrir sér um að það þurfi að rýna allar þessar breytingar sérstaklega. Þær eru a.m.k. það stórar og það er það mikið undir að maður hlýtur að velta því fyrir sér hvernig frá málinu var gengið. Við erum hér með kosningalög í landinu. Kosningalögin og framkvæmd leynilegra frjálsra kosninga eru undirstaða lýðræðis og undirstaða lýðræðisríkisins. Það hvernig það fer fram, hvernig það er tryggt, eins og hv. þingmaður benti á, að aðgengi sé gott, að fólk viti hvert það á að fara, að það þurfi ekki að bíða lengi, að öll framkvæmd sé í föstum skorðum — allt þetta eru grundvallaratriði fyrir kosningar sem standast skoðun í ríki sem kennir sig við lýðræði. Ég ætla að fá að hugsa það aðeins betur hvort það sé hlutverk hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að rýna lagasetninguna. Það kann að vera að það sé nauðsynlegt. Þessar reddingar sem við höfum tekið á okkur að gera hér í annað skiptið í vetur eru kannski merki um að það kunni að vera fleira í þessum lagabálki sem þurfi að rýna í gegn og jafnvel leggja fram breytingartillögur eða frumvörp til að allt sé í samræmi og eins og við viljum hafa það.