152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[17:27]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur, þetta er góð tilgáta. Ofan á þetta bætist að það hve mörg mistök eru í frumvarpinu er ákveðið sýnidæmi í því hversu neikvæðar afleiðingar þetta skipulagsleysi á þinginu, endalaust og alltaf, hefur í för með sér. Að bíða með stór og mikilvæg mál þangað til á lokasprettinum í þinginu þýðir að þau fá ekki nógu vandaða málsmeðferð, það er ekki nægilega mikill tími til að vinna þau vel, það er allt of mikill þrýstingur á nefndir að klára mál hratt, og þannig verða mistökin gerð. Þetta er eitt af þessum málum sem er klárað þarna alveg undir lokin sem þýðir að það er gríðarleg tímapressa á að klára það. Þetta eru auðvitað mannanna verk eins og allt annað og það væri hægt að skipuleggja þingið miklu betur en er í dag. Ég vil meina að hluti af því sé viljandi gert, að setja þingið alltaf í þessa tímapressu til að gera stjórnarandstöðunni erfiðara fyrir að hafa virkt aðhald með málum, að fylgjast vel með því sem er í gangi í þinginu og að geta sett sig vel inn í málin.

En að allt öðru: Vegna þess að við hv. þingmaður deilum þeim heiðri að vera þingmenn fyrir Suðvesturkjördæmi þá er auðvitað áhugaverð breyting hér líka, sem er svo sem engin redding fyrir horn heldur er verið að nota ferðina til að uppfæra ákveðið óréttlætismál, sem er að fjölga þingmönnum kjördæmisins í 14. Þetta er nokkuð sem hefði átt að gerast fyrir síðustu kosningar ef eitthvert réttlæti væri í kosningalöggjöfinni á Íslandi. Við í Pírötum, og fleiri í stjórnarandstöðu, reyndum að fá ríkisstjórnina til að breyta þessu fyrirkomulagi, að sum atkvæði (Forseti hringir.) vegi miklu þyngra en önnur. Af því að við vorum að tala um að fylgjast með framkvæmd þessara kosninga, er þetta ekki eitthvað sem þarf að sinna betur og hraðar?