152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[17:54]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Lagasafnið er notað til lögskýringa, oft til að skoða hver er vilji löggjafans, hvernig umræðan var, hvenær hlutirnir gerðust o.s.frv. Þegar kosningalögin eru skoðuð, og sem betur fer er þetta rafrænt, það flýtir mjög fyrir, kemur í ljós breyting á kosningalögunum, með lögum nr. 113/2021, og stendur að hún hafi tekið gildi 16. júlí 2021. Ég man vel eftir þessu sumarþingi, það var kallað í skyndi til sumarþings um miðjan júlí 2021. Þegar smellt er á frumvarpið sem varð að lögum 16. júlí 2021 í lagasafninu sem við styðjumst við kemur fram að um sé að ræða lög um breytingu á kosningalögum — þetta er bara heiti frumvarpsins — sem samþykkt voru á Alþingi 13. júní 2021 (nefnd um undirbúning framkvæmda laga). Í 5. gr. stendur: Lög þessi taka þegar gildi. Og neðst stendur: Samþykkt á Alþingi 13. júní 2021. Þetta varð að lögum 25. júní 2021 eftir birtingu í Lögbirtingablaði. En það stendur samt hér í lagasafninu að þessi lög hafi tekið gildi 16. júlí. Þá veltir maður fyrir sér: Er þetta kannski enn eitt dæmið um það sem við erum að fjalla um hér í dag sem er að það er verið að margbreyta svona mikilvægum lögum, heildarlögum, kosningalögum, og lögskýringargögnin eru einhvern veginn öll á reiki? Hvernig ætlum við að koma í veg fyrir að þarna verði ákveðið tjón?