152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[18:22]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að víkja að öðru atriði sem kom fram hjá hv. þingmanni sem er hin góða tilraun Reykjavíkurborgar að hafa samband við þá hópa kjósenda sem síst skiluðu sér á kjörstað, með kynningarbæklingi, til að hvetja viðkomandi til að nýta kosningarrétt sinn. Það var tilraun sem Reykjavíkurborg var gerð afturreka með vegna þess að ekki þótti fullnægjandi lagaheimild fyrir þessu. Þetta er eitthvað sem við náðum ekki að laga í fyrra. 31. gr. kosningalaga kveður á um rafrænan aðgang stjórnmálasamtaka að kjörskrá. Það var útskýrt m.a. með því að þannig gæti samtökin sett sig í samband við einstaklinga sem nýlega hafa öðlast íslenskan ríkisborgararétt eða kjósendur sem njóta kosningarréttar til sveitarstjórna án þess að vera ríkisborgarar. Stjórnmálasamtökum var veitt þessi heimild. Á það var bent í umsagnarferlinu, t.d. af Reykjavíkurborg, að eðlilegt væri að framkvæmdaraðili kosninga, sem er sveitarfélagið, hefði a.m.k. jafn góðan aðgang að kjörskrá og stjórnmálasamtök en það náðist ekki saman um það í nefndinni á síðasta kjörtímabili, því miður. Þetta er eitthvað sem ég tel að við þurfum að endurskoða og jafnvel að þrengja. Ég held að það sé töluvert öruggara að leyfa sveitarfélögum, embættismönnum sem framkvæma kosningar, að hafa nokkuð ríkan aðgang að kjörskrá (Forseti hringir.) frekar en stjórnmálasamtökum sem hafa allt aðra aðkomu að kosningum, sérstaklega í ljósi (Forseti hringir.) þess að það er ekki nógu ljóst í þessari 31. gr. kosningalaga hvaða reglur eigi að gilda um aðgang stjórnmálasamtaka að rafrænni kjörskrá. Það er bara frekar óskýrt.