152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[19:22]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhanni Páli Jóhannssyni fyrir andsvarið og þakka honum jafnframt fyrir að vekja athygli á mikilvægu máli. Til að byrja með finnst mér náttúrlega bara svolítið skrýtið að ráðherra sé að setja reglugerð um þetta og að ráðherra hafi svona mikið vald þegar kemur að framkvæmd kosninga yfir höfuð, eins og ég sagði áðan. Ég verð að fá að taka undir með hv. þingmanni þegar kemur að 31. gr. og varðandi aðgang að kjörskrá. Þetta var frekar stórt mál í síðustu kosningum til Alþingis, þ.e. að það dróst á langinn að veita stjórnmálasamtökum aðgang. Ég held að þetta sé fullkomið tilefni til að skoða 31. gr. kosningalaga nánar af því að það má enginn vafi leika á nokkrum hlut sem viðkemur kosningum. Um leið og það leikur vafi á framkvæmd kosninga, á upplýsingum um kosningar, á niðurstöðum kosninga yfir höfuð, þá veit ég ekki hvernig almenningur, hvernig almennir kjósendur úti í bæ, geta haldið áfram að treysta Alþingi, ríkisstjórninni og bara lýðræðinu yfir höfuð, sem er grunnstoð samfélagsins sem við búum í í dag og hefur verið í mjög langan tíma. Ég þakka því hv. þingmanni kærlega fyrir að benda á 31. gr. og hvet hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til að skoða þetta nánar.