152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[19:24]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta ágæta svar. Ef við höldum aðeins áfram að tala um þessa 31. gr.: Fram kemur í áliti persónuverndar, máli nr. 2018/831, að í raun sé ekki skýr lagaheimild til staðar til að vinna persónuupplýsingar í þeim tilgangi að auka kjörsókn, t.d. hjá hópum sem hafa minnstu kjörsóknina. Reykjavíkurborg brenndi sig aðeins á þessu í góðri viðleitni til að hafa samband við þessa hópa. Nú hafa Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg lagt til að sveitarfélög njóti einmitt þessa sama réttar og stjórnmálasamtök til að fá aðgang að kjörskrá til að geta þá haft samband við kjósendur.

Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um kosningalögin, heildarlögin, kemur fram að sambandið telji eðlilegt að sveitarfélög eða kjörstjórnir hafi heimild til að vekja sérstaka athygli á kosningarrétti og kjörstöðum og hafa samband við þá hópa sem eru líklegir til að nýta ekki kosningarrétt sinn, t.d. vegna vanþekkingar, sem sagt fólk sem veit jafnvel ekki að það hefur kosningarrétt. Ég vil varpa því fram hvort ekki væri við hæfi að breyta 31. gr. á þann veg að sveitarfélög fái sambærilega heimild til að nýta kjörskrá til að koma á framfæri upplýsingum í aðdraganda kosninga, hvort þetta væri ekki eitthvað sem hefði verið skynsamlegt að gera í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga.