152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[12:27]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra hreinskilnina. Það kæmi mér á óvart ef við Íslendingar hefðum ekki a.m.k. látið reyna á þessa grundvallarstoð í samskiptum okkar við Breta. Þetta er okkar vinaþjóð og það hefði komið mér mjög á óvart ef við hefðum ekki látið á þetta reyna. En ég mun fara fram á það innan utanríkisnefndar að fá listann frá utanríkisráðuneytinu um það hverjar okkar kröfur voru, okkar Íslendinga, og hvaða kröfum okkar var hafnað í þeim samningaviðræðum. Það hlýtur að vera hægt að taka það saman.

Önnur spurning mín til hæstv. ráðherra tengist því sem er mál málanna, þ.e. öryggis- og varnarhagsmunum okkar Íslendinga. Mér þætti gott að fá að vita frá hæstv. ráðherra hvort hún telji ástæðu til þess að taka upp varnarsamninginn við Bandaríkin. Mér þætti vont að heyra að einungis ætti að skoða þetta í tengslum við áhættumat því að þá finnst mér hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin vera að fela sig á bak við það að Vinstri græn, sem eru á móti NATO, vilja helst ekki hreyfa sig í einu eða neinu. Mín spurning er einfaldlega þessi: Er ráðherra reiðubúin til þess að láta fara fram mat á því hvort ekki eigi að taka upp varnarsamninginn við NATO á grunni þjóðaröryggis, ekki síst með það í huga að samningurinn tekur ekki til þeirra ógna sem við stöndum frammi fyrir núna? Ógnirnar voru aðrar 1951. Og ekki síður hitt, sem er risaatriði, hvernig við virkjum varnir Bandaríkjanna þegar á okkur er herjað, þegar við stöndum frammi fyrir ógn, því að það er ekki skýrt í samningnum. Það eru þannig ýmsar ástæður fyrir okkur til að taka upp varnarsamninginn við NATO. Mun ráðherra beita sér fyrir því innan þjóðaröryggisráðs, sem hún situr í líka, og innan ríkisstjórnar, að taka upp varnarsamninginn við Bandaríkin? Ég mun fara yfir NATO, samskiptin og fleira í ræðu minni á eftir, en þetta er einföld spurning.