152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[12:51]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins varðandi orð hv. þingmanns um tolla almennt þá er það alveg rétt hjá honum eins og hann giskar á, að ég er almennur talsmaður engra tolla, eins og flokkur minn, þó þannig að við höfum hlutverki að gegna varðandi matvælaframleiðsla hér, matvælaöryggi, sem er einhvers konar þjóðaröryggismál líka og sem byggðaaðgerð og annað slíkt, og að standa vörð um það að þeir aðilar geti staðið í slíkri framleiðslu líka gegn niðurgreiddri framleiðslu alls staðar og þar með talið og sérstaklega innan Evrópusambandsríkja. Flest önnur ríki leggja tolla á margfalt fleiri vörutegundir en Ísland, þar með talin Noregur og Sviss og fleiri lönd.

Það er alveg rétt að það er eðlilegt að Evrópusambandið líti meira til öryggis- og varnarmála vegna þeirrar nýju stöðu sem upp er komin innan álfunnar, en það þýðir ekki endilega að hlutverk Evrópusambandsins sé að verða meira. Þátttaka okkar í NATO, þar sem við erum ekki með reglur um fjármagn vegna hernaðarmála af því að við erum ekki með her — þá er það nú þannig að NATO-ríkin sem ekki eru í ESB bera í raun uppi allan meginþungann í fjárframlögum og kostnaði sem af því hlýst og þá sérstaklega Bandaríkin og Bretland og Kanada og fleiri. Þannig að það snýst bara um að það er eðlilegt að sambönd og lönd skerpi fókus, en að við séum bara tryggja að það sé enginn tvíverknaður og við vinnum hlutina þannig að við náum sem bestum árangri, bæði í að tryggja að öryggis- og varnarmál séu í lagi, en líka, eins og hv. þingmaður segir, að tryggja frið. Og það er alveg hárrétt; því meiri sem jöfnuður er í veröldinni á milli heimsálfa og landa og því betri stöðu sem t.d. konur eru í og réttindi stúlkna til menntunar betri — það eru leiðir sem bæta raunverulega stöðu heimsins.