152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[12:55]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að fjalla hér um skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál og af nógu er að taka. Ég vil byrja á að nefna að við erum í nærri tvö ár búin að vera að kljást við Covid-19 veiruna með þeim hörmungum sem henni hafa fylgt og höfum að mörgu leyti sýnt þá samstöðu að reyna allt sem við gátum til að standa saman og vinna gegn þeim vágesti. En því miður hefur þetta, eins og við vitum öll, bitnað á ákveðnum hópi fólks sem hefur farið gífurlega illa út úr þessari veiru og sett ákveðin kerfi á annan endann og valdið gífurlegum röskunum bæði á flugi og á því að fólk geti ferðast óhindrað. En þegar við loksins sáum fyrir endann á þeim ósköpum sem Covid-19 veiran hafði valdið þá hófst nýr veruleiki í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Hernaður og ofbeldi ráðamanna í Rússlandi í garð Úkraínu er eiginlega það sem stendur upp úr núna og okkur ber að taka á þeirri óhugnanlegu mynd sem er að birtast í þessu stríði. Okkur ber að senda skýr skilaboð til ráðamanna í Rússlandi um að við munum aldrei líða ofbeldi og árásir á sjúkrahús og fæðingarheimili. Við erum því miður búin að sjá hrikalegar myndir af því hvernig innrásin bitnar á almennum borgurum og það sem er kannski sorglegast, á börnum og þeim sem síst skyldi, öldruðu fólki og fötluðu fólki sem getur á engan hátt varið sig eða komið sér frá átakasvæðum nema með mikilli aðstoð.

Ég hef oft talið það vera eitt af grundvallaratriðunum að reyna að semja um frið en það virðist því miður ekki vera hægt að treysta einu né neinu sem frá Rússlandi kemur. Við verðum, og ég vona að hæstv. ráðherra sé sammála mér í því, og okkur ber að gera eitthvað, okkur ber að senda skýr skilaboð. Hvernig getum við yfir höfuð leyft það að sendiherra Rússlands á Íslandi geti komið í fjölmiðla og reynt að verja þetta ofbeldi og leyft þeim sem styðja þann hrylling sem þarna fer fram að vera hér á landi? Ég vona heitt og innilega að utanríkisráðherra reyni að fá vestrænar þjóðir til að senda enn skýrari skilaboð til Rússa um að á meðan þessar gegndarlausu árásir á almenna borgara, og börn, standa yfir, þá bara slítum við öllu stjórnmálasambandi við Rússland. Við höfum ekkert að gera með stjórnmálasamband við þjóð sem hegðar sér á þennan ógeðfellda hátt gagnvart fólki sem getur ekki varið sig á nokkurn hátt. Þar af leiðandi þurfum við líka að efla Atlantshafsbandalagið, NATO. Okkur ber að sjá til þess að varnir landsins séu í góðum höndum. Ég var nú einn af þeim sem hrökk í kút í gærkvöldi í Kópavoginum þegar portúgalskar orrustuþotur NATO rufu lofthelgina en ég veit að margir hafa, miðað við þær fréttir sem höfðu borist, orðið skelfingu lostnir vegna þess að þetta var gífurlegur hávaði og stóð lengi yfir. Ég veit að sumir urðu óttaslegnir en ég varð það nú ekki. Ég áttaði mig strax á því hvað þetta var vegna þess að ég hafði heyrt þessar drunur áður og vissi að þarna var verið að rjúfa hljóðmúrinn til lendingar. En þá er líka komin upp sú staða, eftir því sem ég skil, varðandi NATO að það verður engin loftrýmisgæsla í heilan mánuð í aprílmánuði, Portúgalarnir fara og mér skilst að Ítalirnir komi ekki fyrr en í lok apríl eða byrjun maí, sem er auðvitað óásættanlegt. Við vitum og höfum orðið vör við það lengi að rússneskar flugvélar eru ítrekað að reyna og eru bara hreinlega að brjóta lofthelgi okkar og við þurfum þessar vélar til að fæla þær frá. Sennilega vita Rússar það jafn vel að hér verður engin loftrýmisgæsla í aprílmánuði. Ég vona að leyst verði úr því nú þegar svo að til þess komi ekki. Þar af leiðandi verði aukið umfang starfseminnar á öryggissvæðinu í Keflavík og okkar öryggi stóraukið.

Okkur á Íslandi ber að standa vörð um lýðræðisleg gildi og virða alþjóðasamninga og sérstaklega verðum við líka að vera með mannréttindi. Því miður eru mannréttindabrot ekki bara framin í stríði. Við þurfum sérstaklega að gæta að réttindum barna. Þar þarf að taka höndum saman í mannréttindaráði með áherslu á að vernda börn og sérstaklega börn sem eru á flótta í stríðsástandi eins og nú er. Við vitum að lengi hefur verið slæmt ástand fyrir botni Miðjarðarhafs og þar er gífurlegur fjöldi fólks á flótta og okkur ber að senda skýr skilaboð um að við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að aðstoða í þeim málum.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar stendur að öflugt norrænt samstarf verði áfram grundvallarþáttur í alþjóðlegu samstarfi á Íslandi og það er gott vegna þess að Norðurlandaþjóðirnar eru ómetanlegar fyrir Ísland og þá ekki síst nú á þessum viðsjárverðu tímum og okkur ber að sjá til þess að samstarfið við okkar vinaþjóðir á Norðurlöndunum haldist. Ég hef orðið var við hversu vel við getum náð að treysta þau vinabönd gegnum Vestnorræna ráðið og Norðurlandaráð og þar erum við að gera góða hluti. Það verður bara að segjast eins og er að þar erum við með ótrúlega góða aðstöðu til að ná fram og koma að okkar málum í sambandi við hin Norðurlöndin.

Eins og kemur fram í skýrslunni hefur Covid-veiran, og nú stríðið, stóraukið og mun stórauka neyð, einkum í fátækari löndum. Í heimsfaraldrinum hefur sárafátækum fjölgað og stríðið mun einnig fjölga þeim og við því þarf að bregðast. Ég var t.d. að lesa að nú höfum við tekið ákvörðun um að stöðva flestöll viðskipti við Rússland og líka að hætta að þjónusta Rússa við karfaveiðar hér á Íslandi. En mér skilst samt, mér til furðu, ef það var rétt sem ég las í blaði í morgun, að Norðmenn ætli að vera í fullu samstarfi við Rússa í fiskveiðimálum. Maður setur svolítið spurningarmerki við það hvernig getur staðið á því og hvort það sé yfir höfuð rétt, að það sé eitthvað að bresta, samstarf Vesturlanda um að reyna að senda skýr skilaboð til Rússa um að ekki verði nein samskipti við þá meðan þeir standa í þessu stríði við Úkraínu.

En það er fleira sem er í gangi erlendis og eitt af því sem við sjáum eru þær náttúruhamfarir sem hafa skollið á. Það er með ólíkindum hvernig við sjáum, á sama staðnum liggur við, gífurlega skógarelda með þeirri gífurlegu eyðileggingu sem þeir valda á svakalega stórum svæðum, t.d. í Ástralíu, og núna verðum við vitni að ótrúlegum hamförum þar sem þetta er alveg þveröfugt, það er allt að drukkna í flóðum. Þetta segir okkur að við þurfum að skoða þessi veðurfyrirbrigði og þar af leiðandi umhverfismálin og ég vona heitt og innilega að við höldum áfram að taka til í þeim málum. En við verðum alltaf að hugsa um að allar aðgerðir í umhverfismálum, hvort sem er hér heima eða erlendis, bitni ekki á þeim sem síst skyldi, þeim sem hafa það verst og standa verst að vígi, fátækasta fólkinu. Það kemur fram í skýrslunni að Sameinuðu þjóðirnar telja að um 274 milljónir manna þurfi á mannúðaraðstoð og vernd að halda á árinu 2022, 39 milljónum fleiri en 2021. Þetta eru örugglega tölur frá því áður en stríðið hófst.

Við þurfum t.d. að berjast fyrir því að klára hér heima lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks og berjast fyrir því að svipaðir samningar séu lögfestir alls staðar þannig að fatlað fólk hafi öll tól í hendi til að verjast. Við vitum að þeir sem verða verst úti í öllu, hvort sem það er hér heima eða erlendis, í stríði, flóðum, eldum, er fatlað fólk, veikt fólk og aldrað fólk, það stendur verst að vígi.

Hitt sem ég ætlaði að tala um er ESB. Ég vona heitt og innilega að við munum aldrei leggja inn aðildarumsókn í ESB og förum vonandi enn þá síður inn í það skelfilega samband vegna þess að það mun ekki verða okkur til góðs. Ég hef enga trú á því. Við þurfum líka, og það vil ég spyrja utanríkisráðherra um, að fara að taka á þessum skefjalausu tilskipunum sem dynja á okkur úr Evrópusambandinu sem við virðumst því miður bara stimpla átómatískt og án þess að reyna að sporna við. Margar af þessum tilskipunum sem við erum að samþykkja koma okkur bara ekki neitt við hér á þessu eylandi í Norður-Atlantshafi. Ég spyr hvort ráðherra hafi skoðað það og reynt að hafa kontról á því að farið verði í gegnum þessar tilskipanir og reynt að taka út það sem okkur kemur ekkert við. Við vitum hvað varð með tilskipunina um orkupakkann og fleira.

Við eigum líka að einbeita okkur að sjálfbærni og eitt af því sem við gætum t.d. lært er að vera sjálfbær með grænmeti. Við eigum að geta það. Við eigum að byggja gróðurhús. Við eigum t.d. að læra af Hollendingum og öðrum sem eru framarlega á þessu sviði. Við höfum að mörgu leyti mun betri aðstöðu til að koma málum þannig fyrir að við gætum verið sjálfbær í grænmetisræktun með gróðurhúsum. Við höfum hreint vatn, við höfum rafmagnið, við höfum heita vatnið þannig að við ættum að vera í mjög góðum málum og geta komið þessum málum í réttan farveg.

Okkur ber líka að vera í samstarfi við þjóðir um að vernda norðurslóðir og reyna að gera allt sem við getum í öryggismálum okkar og samstarfi við aðrar þjóðir til að tryggja að friður haldist. Og vonandi, eins og ég sagði, sendum við skýr skilaboð til Rússa um að við munum aldrei líða þetta stríð og á meðan þeir eru í þessu stríði þá höfum við í sjálfu sér ekkert með þá að gera hér á landi.